Af­hjúpun Pan­dóru­skjölin eru saman­safn 11,9 milljóna ó­líkra skjala frá fyrir­tækjum sem sér­hæfa sig í upp­setninga aflands­fé­laga og aflands­sjóða. Skjölunum var lekið til al­þjóð­legra sam­taka rann­sóknar­blaða­manna (ICIJ) sem deildi þeim með fjöl­miðlum í 117 löndum.

Blaða­menn Stundarinnar, þeir Aðal­steinn Kjartans­son og Ingi Freyr Vil­hjálms­son, fengu það verk­efni að rýna í skjölin, á­samt Jóhannesi Kr. Kristjáns­syni hjá Reykja­vík Media. Aðal­steinn segir verk­efnið hafa verið nokkuð um­fangs­mikið.

„Það er búið að vera nokkurra mánaða vinna við að kemba þetta. Ég og Jóhannes Kr. Kristjáns­son, hjá Reykja­vik Media, höfum unnið saman við að vinna fréttir upp úr sams konar lekum sömu sam­taka þannig að það lá beint við að við yrðum fengnir til að fara yfir þau ís­lensku nöfn sem kynnu að vera í þessum gríðar­lega stóra leka.“

Mun færri Ís­lendingar en í Panama-skjölunum

Gögnin eru af ó­líkum toga. Upp­runa þeirra má rekja til 14 fyrir­tækja víða um heim og er heildar­stærðin um 2,94 tera­bæti. Þótt marga Ís­lendinga sé að finna í skjölunum er fjöldi þeirra ekki nærri því jafn mikill og í Pana­ma­skjölunum árið 2016 er Ís­land sló heims­met miðað við höfða­tölu. Að sögn Aðal­steins eru Pan­dóru­skjölin um margt frá­brugðin fyrri lekum.

„Þarna er verið að leka upp­lýsingum frá þjónustu­fyrir­tækjum sem stofna og reka aflands­fé­lög og sjóði sem ekki voru í beinu við­skipta­sam­bandi við ís­lensk fyrir­tæki eins og ís­lensku bankana. Það er kannski fyrst og fremst munurinn á þessum skjölum núna og þeim sem við köllum Pana­ma­skjölin sem unnið var úr árið 2016. Þar vorum við með lög­fræði­skrif­stofu Mossack Fon­se­ca sem var í beinum tengslum við ís­lenska banka­menn.“

Gögnin í Pana­ma­skjölunum brugðu nýju ljósi á tíma­bilið um og eftir hrun og stað­festu það sem marga hafði lengi grunað um út­breiðslu aflands­fé­laga innan ís­lensks við­skipta­lífs. Aðal­steinn segir skrýtið and­rúms­loft hafa ríkt í ís­lensku við­skipta­lífi á því tíma­bili.

„Bankarnir seldu sín aflands­fé­lög eins og hverja aðra vöru. Það var bara eins og að fá debet- eða kredit­kort eða sparnaðar­reikning fyrir barnið sitt. Peningarnir sem voru í um­ferð á þeim tíma og reglurnar sem giltu um þetta voru bara allt aðrar. Í dag sjáum við færri ís­lenska ein­stak­linga í þessu en upp­hæðirnar eru líka allt aðrar og eðli þeirra gjörninga sem eru í gangi er allt annað.“

Er leki skjalanna að segja okkur eitt­hvað nýtt og heldurðu að hann muni breyta ein­hverju í hinu stóra sam­hengi um­fram Pana­ma­skjölin?

„Það sem þessi leki núna segir okkur kannski fyrst og fremst er að aflands­hag­kerfið er ekki af­leiðing þess að eitt og eitt fyrir­tæki bjóði upp á þjónustu sem er þess eðlis eins og birtist í Pana­ma­skjölunum. Þarna erum við með leka úr fjór­tán ó­líkum fyrir­tækjum sem sýnir, eins og ekki verður um­flúið, að þetta er kerfi sem er hannað til þess að funk­era svona.“

Aðal­steinn og aðrir hafa á­réttað að ekki er ó­lög­legt að nota fé­lög í skatta­skjólum. Máli skipti hvernig skatt­greiðslum sem snerta slík fé­lög og eig­endur er háttað.

„En þetta auð­veldar þeim sem vilja stunda ó­lög­lega starf­semi að stunda þá starf­semi og gerir það erfiðara fyrir yfir­völd, sama hvort það er á Ís­landi eða annars staðar, að hafa hendur í hári þeirra sem stunda ó­lög­lega starf­semi. Það er búið að hanna kerfi sem nær yfir allan heiminn sem er ekki ó­lög­legt en allt­um­lykjandi og peningar streyma þarna hægri vinstri. Og það er kannski það sem þessi leki sýnir og stað­festir.“