Almenningur á Íslandi hefur töluvert sterkari hugmyndir en aðrir Norðurlandabúar um að auðmagn móti tækifærin. Þá telja Íslendingar að pólitísk tengsl hér á landi séu sérlega mikilvæg og eru á pari við Rússa í þeim skoðunum.
Miðað við nágrannalönd Íslendinga eru óvenjumargir hér á landi sem telja að pólitísk sambönd skipti miklu máli fyrir tækifærin í lífinu. Ísland líkist meira Rússlandi en Norðurlöndunum hvað þetta viðhorf varðar. Þetta kemur fram í Alþjóðlegu viðhorfakönnuninni sem kynnt verður í dag.
Stjórnendur könnunarinnar hér á landi eru Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, prófessorar í félagsfræði við Háskóla Íslands. „Ég túlka þetta þannig að sýn almennings endurspegli það sem er í umræðunni. Það er ómögulegt að segja hvað er endurspeglun á umræðu eða að hve miklu leyti þetta viðhorf endurspeglar persónulega reynslu. En það hefur lengi verið í umræðu á Íslandi að pólitísk sambönd séu einn lykill velgengni hér á landi,“ segir Jón Gunnar.

Aðspurður hvort hægt sé að kalla þessi tengsl spillingu, spyr Jón Gunnar á móti: „Já, er pólitískur klíkuskapur ekki spilling? Íslendingar telja að hér sé meiri spilling en til dæmis almenningur á Norðurlöndunum telur að þar sé fyrir hendi.“
Í könnuninni kemur fram að þótt tekjumunur á Íslandi sé minni en gengur og gerist alþjóðlega, sé hlutfall þeirra sem telja muninn „of mikinn“ hátt á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Ríflega 80 prósent telja tekjumun of mikinn samkvæmt könnuninni. Niðurstöður könnunarinnar benda líka til að afar fáir vilji fullkominn jöfnuð. Flestir vilja hækka lágu launin og lækka háu launin, þannig að munurinn sé milli hundrað og fjögur hundruð prósent. Aðeins um fimmtungur vill hafa launamun meiri en það.
Skoðað var hvernig kjósendur flokkanna sjá ójöfnuð. Þar kemur fram skýr lína milli kjósenda hægriflokka, sem eru mun ólíklegri til að telja ójöfnuð of mikinn, og vinstriflokkanna, sem eru miklu líklegri til að telja ójöfnuð of mikinn. Þeir sem einkum telja ójöfnuð of mikinn eru konur, eldri borgarar, einstaklingar búsettir utan höfuðborgarsvæðisins, einstaklingar sem ekki hafa háskólamenntun og þeir sem búa á tekjulægri heimilum.
Í könnuninni kemur einnig fram að mikill meirihluti telur að aðgangur einstaklingsins að heilbrigðisþjónustu og menntun eigi að vera óháður efnahag. Þar raðast Ísland ofarlega í alþjóðlegum samanburði. Þó hefur þetta jafnaðarviðhorf aðeins veikst síðan könnunin var síðast gerð fyrir tíu árum, sérstaklega hvað varðar jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Þá telja langflestir Íslendingar að dugnaður og menntun skipti miklu máli til að ná lengra í þjóðfélaginu. Með öðrum orðum telja flestir að þjóðfélagsstaða sé áunnin.
Einnig kemur fram útbreidd trú á að auðmagn (efnahagslegt, félagslegt, menningarlegt) hafi mikil áhrif á tækifæri einstaklingsins. Íslendingar telja því að það að koma úr ríkri fjölskyldu eða þekkja rétta fólkið hafi mikil áhrif á tækifæri. Þetta viðhorf hefur styrkst nokkuð hérlendis síðan fyrir tíu árum.
„Það kemur á óvart hvað það er útbreidd skoðun hvað auðmagn og tengsl, bakgrunnur, hafi mikil áhrif á tækifæri landsmanna. Ég hélt að við værum líkari Norðurlandaþjóðunum,“ segir prófessor Jón Gunnar Bernburg.