Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, FDA, hefur samþykkt neyðarheimild fyrir bóluefni Pfizer og BioNTech gegn kórónaveirunni.

Bret­ar voru fyrsta þjóðin til að hefja al­menn­ar bólu­setn­ing­ar með bólu­efn­i Pfizer-Bi­oNTech gegn kórónaveirunni og íslensk yfirvöld hafa undirritað samning um 170 þúsund skammta sem duga fyrir 85 þúsund manns. Lyfjastofnun Evrópu á enn eftir að veita lyfinu markaðsleyfi en gert er ráð fyrir að ákvörðun um málið verði tekin fyrir 29. desember næstkomandi.

Það er ekki seinna að vænna en í dag greindist metfjöldi smita í Bandaríkjunum, alls 280.513 manns voru staðfest með COVID-19 smit í dag. Alls hafa 16 milljónir greinst með COVID-19 Í Bandaríkjunum og tæplega 296 þúsund látið lífið vegna sjúkdómsins.

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, segir þetta eitt mesta kraftaverk í sögu læknisfræðinnar, að Bandaríkin hafi náð að tryggja bóluefni innan við níu mánuði.

Hann segir bóluefnið vera öruggt og að almenningur muni ekki þurfa að borga fyrir bólusetningar. Hann tekur undir með meðmælum Alþjóðaheilbrigðisstofnunar, WHO, um að fólk á framlínunni eigi að verða bólusett fyrst.

Bólusetningar geta ekki hafist fyrr en Sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna, CDC, samþykkir bóluefnið en gert er ráð fyrir að ráðgjafanefnd CDC greiði atkvæði um það á sunnudaginn hvort mælt verði með bóluefninu.