Bandaríska alríkislögreglan, FBI, tekur nú einnig þátt í rannsókn sem yfirvöld í Bandaríkjunum framkvæma nú á því hvort að gallar hafi verið á viðurkenningu bandarískra flugmálayfirvalda á öryggi Boeing 737 MAX vélanna. Dómsmálaráðuneytið hefur yfirumsjón með rannsókninni en er framkvæmd af samgönguyfirvöldum.

Sjá einnig: Rann­saka fram­leiðslu­ferli Boeing 737 MAX vélanna

Í gær var greint frá því að bandarísk stjórnvöld hafa sett á fót athugun á því hvernig Boeing 737 MAX-vélarnar fengu flugleyfi.Tvær farþegavélar hafa farist á undanförnum fimm mánuðum. Hundruð létu lífið en vélarnar hafa verið kyrrsettar. Rannsakendur flugslysanna hafa sagt að „augljós líkindi“ séu með slysunum. 

Í frétt bandaríska miðilsins Seattle Times segir að tilgangur rannsóknarinnar sé að skoða hvort gallar séu á ferli sem fyrirtæki ganga í gengum með flugvélar sínar til að vera veitt öryggisviðurkenning. En Boeing hafði gengið í gegnum það ferli með 737 MAX vélarnar og fengið slíka viðurkenningu. 

Í frétt Seattle Times er farið ítarlega yfir það hvernig rannsóknin hefur stækkað ört undanfarna daga. Þar er þó greint frá því að hvorki fulltrúar dómsmálaráðuneytisins eða FBI hafi viljað staðfesta aðkomu FBI að rannsókninni. 

Aðrar stofnanir sem framkvæma rannsóknir á því hvað olli slysunum tveimur, svo sem Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) hafa gefið út að vélarnar muni ekki fara í loftið fyrr en fullnægjandi svör hafi fengist við því hvers vegna þær hröpuðu.

Uppfærsla tilbúin fyrir lok mánaðar

Boeing hefur tilkynnt flugfélögum að þau megi búast við því að búið verði að uppfæra tölvukerfi Boeing 737 MAX vélanna fyrir lok mánaðarins. 

Sjá einnig: Uppfærsla Boeing 737 MAX tilbúin fyrir lok mánaðar