FBI hefur hafið formlega rannsókn á því hvernig bandaríska milljarðamæringnum Jeffrey Epstein tókst að fremja sjálfsvíg í klefa sínum þrátt fyrir að eiga að vera á svokallaðri sjálfsvígsvakt. Epstein fannst látinn í klefa sínum í gær.

Heppilegt fyrir suma

Epstein var handtekinn snemma í júlí vegna gruns um að hafa haft fjölda ungra kvenna í kynlífsþrælkun um árabil. Hann átti valdamikla vini og leikur grunur á um að hann hafi veitt mörgum þeirra aðgang að stúlkunum sem hann hélt í kynlífsánauð.

Aðeins örfáum dögum fyrir andlát Epstein kom fangavörður að honum meðvitundarlausum í fangaklefa sínum með áverka á hálsi. Hann var í kjölfarið settur á sérstaka sjálfsvígsvakt í fangelsinu.

Borgarstjóri New York, Bill de Blasio, segir það „aðeins of heppilegt“ fyrir suma að Epstein sé látinn. Þannig getur hann ekki lengur ljóstrað því upp hverjir nýttu sér þjónustu þeirra ungu stelpna sem hann á að hafa selt. Sem dæmi um valdamikla menn sem voru í sambandi við Epstein á sínum tíma má nefna Bandaríkjaforsetana Donald Trump og Bill Clinton.

„Það sem mörg okkar viljum vita er, hvað vissum við í raun og veru mikið?“ sagði borgarstjórinn í samtali við fjölmiðla í Bandaríkjunum. „Hversu margir aðrir milljarðamæringar tóku þátt í ólöglegri starfsemi hans? Þær upplýsingar dóu ekki með Jeffrey Epstein. Það þarf að rannsaka þetta nánar.“

Margar samsæriskenningar hafa litið dagsins ljós í kjölfar dauða Epstein. Í gær var leynd aflétt af gögnum um brot hans gegn ungum konum á heimili hans í Palm Beach og í New York á árunum 2002 til 2005.

Verða að komast til botns í málinu

Þá er á reiki hvort Epstein hafi í raun verið á sjálfsvígsvakt. Mismunandi upplýsingar koma fram í erlendum fjölmiðlum en samkvæmt New York Times var hann fyrst settur á sjálfsvígsvakt en síðan tekinn af henni rúmri viku fyrir andlát hans í gær.

„Hvernig í veröldinni var hann ekki undir sérstöku eftirliti? Hvað er raunverulega á seiði hérna?“ spurði de Blasio sig í samtali við fjölmiðla. „Ég held að það sé spurning sem við verðum að fá fullnægjandi svar við.“

Epstein þykir hafa sloppið ótrúlega vel frá fyrri brotum sínum gegn stúlkum undir lögaldri. Á grundvelli samnings við Alexander Acosta, þáverandi saksóknara játaði Epstein minna brot og fékk vægari dóm upp á 13 mánaða fangelsi.

Acosta sagði nýverið af sér embætti atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Trumps, en samkvæmt úrskurði dómara í Flórídafylki braut samningur hans við Epstein gegn rétti brotaþola hans vegna þess að þeim var ekki sagt frá því að málið hefði verið leyst utan dómstóla.

BBC greinir frá.