Banda­ríska al­ríkis­lög­reglan, FBI, fram­kvæmdi hús­leit á heimili Donalds Trumps, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, í gær. Hús­leitin fór fram á heimili Trumps í Mar-a-Lago á Palm Beach, að því er fram kemur í yfir­lýsingu sem for­setinn fyrr­verandi sendi frá sér í gær­kvöldi.

Í frétt BBC kemur fram að hús­leitin tengist hugsan­lega með­ferð Trumps á opin­berum skjölum úr for­seta­tíð hans. Á­stæða hús­leitarinnar hefur hefur þó ekki fengist stað­fest, að sögn fjöl­miðla vestan hafs. Hvorki FBI né dóms­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna hafa tjáð sig um málið.

Trump gagn­rýndi hús­leitina harð­lega í yfir­lýsingu sem hann sendi frá sér og sagði að nú væru myrkir tímar í sögu Banda­ríkjanna. Aldrei áður hefði fyrr­verandi for­seti þurft að sæta slíkri með­ferð.

Í frétt BBC kemur fram að lögum sam­kvæmt þurfi for­setar að koma öllum vinnu­skjölum, pappírum og tölvu­póstum til þjóð­skjala­safns Banda­ríkjanna (e. National Archive) en Trump er sagður hafa látið það undir höfuð leggjast í ein­hverjum til­fellum. Lög­maður hans, Christina Bobb, stað­festi við NBC News í gær­kvöldi að FBI hefði lagt hald á skjöl í hús­leitinni.

Trump sagðist hafa sýnt fullan sam­starfs­vilja í málinu og því hefði hús­leitin í gær verið ó­þörf. Segir hann að nú sé reynt að koma í veg fyrir að hann bjóði sig fram að nýju í em­bætti Banda­ríkja­for­seta. Það sé ó­líðandi og eitt­hvað sem að­eins á sér stað hjá þriðja heims ríkjum.