Lovísa Arnardóttir
lovisaa@frettabladid.is
Sunnudagur 22. nóvember 2020
12.00 GMT

Bókin Draumaland sem kom fyrst út árið 2006 og hefur nýst foreldrum víða um heim hefur nú verið endurútgefin og uppfærð. Bókin er af mörgum talin nauðsyn við fæðingu barns og hefur verið mörgum foreldrum leiðarljós og veitt ómetanlega aðstoð um miðjar nætur.

Höfundur bókarinnar, Arna Skúladóttir, hefur undanfarin ár unnið að því að uppfæra bókina einnig fyrir eldri börn og með nýjum upplýsingum um, til dæmis, lundarfar barna, nánd og samskipti við foreldra og hvernig þetta allt hefur áhrif á líðan og svefn barnanna.

„Að tala um til dæmis lundarfar við foreldra er ofboðslega skemmtilegt. Að börn, ekki frekar en fullorðnir, séu ekki öll eins, að hver og einn sé sérstakur frá upphafi og hvað það sé sem gerir okkur það. Fólk sem er innan um börn, fleiri en eitt eða tvö, er flest búið að átta sig á þessu. Þetta er ekki nýr sannleikur. Margbreytileikinn er ekki galli. Hann er kostur og gefur lífinu lit. En gerir það stundum aðeins flókið“ segir Arna Skúladóttir um nýja útgáfu Draumalandsins.

Hún segir að fyrsta útgáfa bókarinnar Draumaland sé öll inni í nýju bókinni og einnig lítill hluti bókarinnar Veganesti sem Arna skrifaði einnig, um næringu barna.

„Hún hefur lifað mjög vel. Niðurstöður hennar eru „solid“ og þeim hefur ekki verið hnekkt, sem er gott. Draumaland náði einstöku flugi og hefur verið þýdd á fjölda tungumál og gefin út víða um heim,“ segir Arna um bókina sem hefur verið þýdd á ensku, frönsku, þýsku, pólsku, hollensku og kóresku.

„Gamla bókin er með tímapælingum um hrynjanda og það var það sem seldi hana erlendis og gerði hana vinsæla,“ segir Arna um klukkurnar vinsælu úr bókinni sem víða er dreift á meðal foreldra.

Hún segir að það sé margt sem hafi bæst við í nýju útgáfunni og nefnir sem dæmi að þar er fjallað um svefn barna allt að sex ára aldri en í fyrstu útgáfunni er það aðeins upp að 24 mánaða.

„Það sem ég fjalla um í bókinni og gerir mína vinnu skemmtilega er að það eru ekki allir eins. Við fáum öll misjöfn viðfangsefni í börnunum okkar,“ segir Arna.

Svefn barna skiptir oftast alla á heimili þess mjög miklu máli.
Fréttablaðið/Getty

Það sem gerir lífið skemmtilegt

Í hvert einasta skipti sem barn fæðist þurfa foreldrar fyrst og fremst að kynnast því hægt og rólega og sjá hvað hentar því. Arna segir að ekkert endilega sé hægt að nýta þá þekkingu sem er til staðar með fyrra barninu og segir að meira að segja tvíburar geti verið svo ólíkir að ekki virki það sama á báða.

„Ég á til dæmis þrjú börn og þau eru öll mjög ólík. En þetta er það sem gerir lífið skemmtilegt, en samt svolítið flókið, ekki bara varðandi svefn heldur varðandi samskipti, smekk og í raun flest allt“ segir Arna.

Í nýrri útgáfu er fjallað um lundarfar barns og hvernig það hefur áhrif á svefn þess, skjátíma, og hvernig samvera með foreldrum getur haft áhrif á svefninn. Þá er einnig fjallað um fjölskyldutakt og segir Arna að þó að hluti bókarinnar styðjist við eigin rannsóknir þá styðjist hún að sjálfsögðu einnig við rannsóknir annarra fræðimanna.

„Ég valdi ákveðna fræðimenn til dæmis varðandi umfjöllun um lundarfar, af því þeir eru með þægilegt og handhægt flokkunarkerfi. Einnig í umfjöllunina varðandi skipulag á samskiptum og samveru. Það eru ákveðin fræði sem ég leita í þar sem er lögð áhersla á að það þurfi ekki allir það sama og okkar hlutverk þegar við eignumst börn er að kynnast því og vita hver er komin,“ segir Arna og bætir við:

„Ég reyni að setja þetta fram á þægilegan máta um hvernig sé hægt að nota þetta í daglegu lífi.“

Ákveðin einkenni sem setja börn í áhættu að sofa illa

Lundarfar er talin undanfari persónugerðar og segir Arna að það séu ákveðin lundarfarseinkenni sem setja börn í áhættu að sofa illa.

Það getur verið barn sem er auðtruflað, sem er mjög algengt fyrir börn sem eru óvær þegar þau eru lítil, nokkurra mánaða. Þau láta allt trufla sig. Þetta eru börn sem hefðu viljað vera aðeins lengur í meðgöngu

„Það eru ákveðnir þættir sem hafa meiri áhrif á svefn en aðrir. Það er mjög áhugavert. Bæði hjálpar það manni að skilja af hverju og þá hjálpar það manni í leiðinni að bregðast við af meiri skynsemi,“ segir Arna.

Arna notast við kenningar og rannsóknir hjónanna Thomas og Chess um lundarfar þar sem er settir eru fram níu flokkar, eins og hrynjandi, ákefð, þrautseigja, auðtruflun og aðlögunarhæfni.

„Það er gott að átta sig á hvar styrkleikar barnsins liggja. Af því á þeim ætlarðu að byggja. Svo ertu líka með það sem þú ert ekki eins góður í og það þarftu að hjálpa þeim í. Það getur verið barn sem er auðtruflað, sem er mjög algengt fyrir börn sem eru óvær þegar þau eru lítil, nokkurra mánaða. Þau láta allt trufla sig. Þetta eru börn sem hefðu viljað vera aðeins lengur í meðgöngu,“ segir Arna og hlær.

Hún segir að þetta séu oft börn sem foreldrar fá ávítur frá samfélaginu um að hafa „pakkað í bómull“ eða tiplað á tánum í kringum.

„Yfirleitt eru þetta krakkar sem við köllum auðtrufluð og á þau er, til dæmis, mjög gott að nota suðhljóð [e. white noise]. Ekki til að róa þau, heldur til að blokkera aðrar truflanir, eins og þegar gestir eru og þau eiga að fara að sofa eða til dæmis á gamlárskvöld,“ segir Arna.

Hún segir að fólk sem hafi verið auðtruflað sem börn hætti ekki endilega að vera það eftir því sem þau eldast en það læri að lifa með því.

„Eins og fullorðnir sem sofa með tappa í eyrunum. Þú lærir inn á þetta ,“ segir Arna.

Hún segir að eins sé með mjög hreyfivirka krakka, það verði að taka tillit til þess og leyfa barninu að fá útrás í hreyfingu. Það eigi ekki að líta á það sem mínus að barnið sé mjög hreyfivirkt en að stundum skapist vandi þegar foreldrar sem ekki eru mjög hreyfivirk fá börn sem eru það. Það getur verði átak fyrir foreldra að koma sér út með barnið svo það geti hreyft sig, í öllum veðrum. Að hreyfa sig úti er nefnilega mun betra fyrir barnið en að hreyfa sig inni, þó bæði sé gott.

„Þú getur ekki látið barnið fara að sofa á kvöldin með fullt batterí. Það hafa auðvitað allir gott af hreyfingu en fyrir slík börn þá er það algerlega nauðsynlegt.“

Arna segir mikilvægt að foreldrar átti sig á hvar styrkleikar barna þeirra liggja.
Fréttablaðið/Valli

Börn með mis sterkan eða veikan takt

Hún segir að það sem trufli mest er svefntaktur eða það sem hún kallar hrynjanda í bókinni.

„Það eru börn sem fæðist með mjög sterkan takt eða hrynjanda. Flestir þekkja örugglega sögur af svona börnum sem hafa alltaf sofið vel og fara alltaf að sofa á ákveðnum tíma og vakna alltaf á sama tímanum. Foreldrarnir telja sig þá hafa staðið sig mjög vel, sem er góður möguleiki en hugsanlega var barnið bara fætt svona,“ segir Arna.

Hún segir að takturinn geti verið mis sterkur eða veikur eftir börnum og segir að klukkurnar sem frægar eru úr fyrstu útgáfu Draumalandsins komi sér vel að notum fyrir foreldra barns hvort sem er með sterkan eða veikan takt.

Hún segir að börn með veikan takt séu til dæmis þau sem geta vakað lengi á aðfangadag, eiga auðvelt með að fara í gegnum tímabelti en að svo séu þau sem eru með sterkan takt börn sem verða bara alltaf þreytt á sama tímanum.

„Veikur taktur getur líka haft áhrif á matarhegðun. Krakkar með lítinn takt geta verið án þess að borða mjög lengi. Það þarf að passa að gefa þeim að borða á ákveðnum tíma. Fimm eða sex ára börn sleppa því stundum að biðja um mat því þau eru að gera eitthvað skemmtilegt. Þetta eru krakkar sem geta verið með hægðatregðu því þau nenna ekki að fara á klósettið til að kúka ef líkaminn segir að þau þau þurfi þess. Þetta er líkamstaktur og hefur í raun áhrif á viðbrögð barnsins við því að líkaminn segir þeim að hann sé þreyttur, svangur eða þurfi á klósett. Barnið hlustar illa á skilaboð líkamans,“ segir Arna.

Skjánotkun og svefn

Nýr kafli í bókinni er um skjánotkun. Þar er fjallað um frosin viðbrigði foreldra þegar þau nota skjátækin sín eða það sem kallað er á ensku „stillface“ en fræðimenn sem rannsaka efnið hafa tekið eftir því að ásýnd foreldra við skjáinn verður í mörgum tilvikum eins og þegar um er að ræða mjög þunglynt foreldri.

„Það ætlar enginn að vera með „stillface“ fyrir framan t.d. nýfætt barn en það þarf stundum bara að vekja athygli á því. Síminn er hluti af nútímasamfélagi en við þurfum að læra á hann og hvaða áhrif hann getur haft,“ segir Arna og bætir við:

„Eins og gefa brjóst og vera í símanum. Það er kannski eitt að kíkja rétt á hann en það er mjög mikilvægt að horfa á barnið meðan það er að drekka þó það sé eins og barnið taki ekki eftir því, þau gera það samt.“

Nú er fjallað um svefn barna upp að sex ára aldri.
Mynd/Sögur útgáfa

Skipulögð samvera hafi mikil áhrif á svefn

Arna hefur verið í mörg ár að vinna að bókinni. Hún segir að hún hafi líklega verið byrjuð að pæla í viðbótinni við bókina áður eða rétt eftir að fyrsta útgáfa bókarinnar kom út. Hún hafi hitt mann á ráðstefnu í París árið 2006 og hafi þar fyrst heyrt af stefnunni sem kölluð er í bókinni hhh eða horfa, hinkra og hugsa.

„Að gera svona bók verði til er löng þróun. Ég hef lengi verið í þessu starfi og hef hitt og talað mikið við fólk í þessum geira, sérstaklega á ráðstefnum erlendis. Þegar þú gerir það reglulega þá opnast heill heimur af þekkingu, miklu stærri en maður heldur og þetta er svo skemmtilegt, bæði með lundarfarið og samskiptin,“ segir Arna.

„HHH (horfa, hugsa, hinkra) er skipulögð samvera. Það er horfa, bíða rólegur og velta fyrir sér hvað barnið er að gera. Til dæmis ef þú ert með þriggja ára barn og kemur heim af leikskóla þá er gott að koma beint heim og taka 20 mínútur saman. Loka ykkur af í rými með engum truflunum, bara dótakassa og smá mat í skál því þau eru alltaf svöng, og segja „Eigum við að leika“. Svo gerir maður ekkert nema horfa á barnið og brosa. Þetta er 100 prósent tenging og barnið fer líklegast bara að leika. Stundum biður það um eitthvað en oftast gjóa þau á mann augunum af og til, lang flest elska þetta, að eiga óskipta athygli foreldra og að foreldrið sé auðsýnilega ánægt með barnið“ segir Arna.

Barnið á að fá algerlega óskipta athygli. Það þarf ekkert meira en 20 mínútur og kvöldið verður miklu rólegra

Hún segir að þetta hafi gífurleg áhrif á bæði svefn og vellíðan barna. Þetta sé þekkt meðferð sem sé einnig notuð við allskyns öðrum vandamálum.

„Barnið veit þannig að það á bakland og að það er ánægt með það. Þú mátt þannig ekki hlaupa á klósettið, eða að setja í vél eða leggja þig eða fara í símann. Barnið á að fá algerlega óskipta athygli. Það þarf ekkert meira en 20 mínútur og kvöldið verður miklu rólegra,“ segir Arna.

Pabbar dotta en mömmur hlaupa í önnur verkefni

Hún segir að pabbar séu oft gjarnir á að dotta aðeins í þessum tíma og að mömmurnar séu gjarnar á að hlaupa í önnur verkefni. En segir að það sé mjög mikilvægt að gera það ekki. Hún segir að það sé til dæmis gott að gera þetta í tengslum við ýmsar breytingar í lífi barnsins til dæmis þegar þau hætta á brjósti, þegar þau eignast nýtt systkini eða eru að byrja á leikskóla. „Ég hef séð þetta hafa veruleg áhrif hjá mörgum börnum. Það þarf ekkert endilega að gera þetta á hverjum degi. Bara nokkrum sinnum í viku. Kvöldið verður rólegra og svefninn þannig líka,“ segir Arna.

Hún segir að hvort foreldrið sem er geti gert þetta með barninu en einnig amma eða afi og allir sem barninu þykir vænt um. Eitt barn saman með einum fullorðnum.

Í bókinni er einnig fjallað um svokallaðan öryggishring og segir Arna að það sé bæði hægt að nota hann til að kenna börnum að sofna sjálf að kvöldinu og í daglegu lífi.

„Öryggishringurinn og hhh er bæði mjög áhugavert og kallast mikið á. Öryggishringurinn er miklu þekktari og mikið til um hann á netinu sérstaklega á ensku. Hhh kemur úr sálgreiningum og fer aðeins dýpra.“

Skipulögð samvera getur haft mjög mikil og jákvæð áhrif á svefn barna.
Fréttablaðið/Getty

Mikill áhugi en vantar samræmi

Arna starfar daglega á göngudeild á Barnaspítala hringsins þar sem hún ásamt tveimur öðrum veitir foreldrum ráðgjöf um svefn barna.. Hún segir að undanfarin ár hafi hún fært sig frá yngstu börnunum og yfir í þau eldri.

Finnst þér heilbrigðisstarfsfólk í ungbarnavernd og annars staðar hafa næga þekkingu á þessum málum?

„Það er mikill áhugi en vantar samræmi. Fyrir tveim til þremur árum var ég ásamt kollega mínum Önnu Ólafíu með rannsókn í gangi á sex heilsugæslustöðvum á stór-höfuðborgarsvæðinu og þjálfaði hjúkrunarfræðingana í þessari meðferð. Það kom mjög vel út en það þyrfti að hlúa betur að þessu. Skipulagið er þannig á heilsugæslunni að það eiga allar stöðvar að geta allt, það er nær ekkert vísað á milli stöðva. En við erum svo lítið land að mér finnst að það eigi að vera t.d. fjórar stöðvar á stór-Reykjavíkursvæðinu sem sérhæfa sig í þessu og aðrar þá í einhverju öðru. Mér finnst það eigi að styrkja fyrsta stigs þjónustu og þess vegna fór ég af stað með þess rannsókn,“ segir Arna og bætir við:

„Þessi bók ætti að geta hjálpað bæði innan heilsugæslunnar og ekki síður foreldrunum sjálfum. Það er mikið efni í henni. Foreldrar eru mjög áhugasamir um allt efni er snerta líðan barnanna þeirra. Mig langaði að leggja þetta efnir upp fyrir foreldra og vona að þau geti notað þetta, valið hvað passar þeim og þeirra börnum,“ segir Arna að lokum.

Athugasemdir