Nú ættu allir lands­menn 12 ára og eldri að hafa fengið boð í bólu­setningu gegn Co­vid-19 og er nú stefnan sett á að gefa sem flestum örvunar­skammt. Nú þegar hafa allir þeir sem fengu bólu­efni Jans­sen verið boðið upp á örvunar­skammt og er næsta verk­efni að bjóða öðrum, sem fengu bólu­efni Pfizer, Moderna, eða AstraZene­ca, þriðja skammtinn.

„Ég er ekki með ná­kvæma dreifingar­á­ætlun en við erum bara að fá mjög mikið af bólu­efnum núna á næstu mánuðum,“ segir Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir í sam­tali við Frétta­blaðið að­spurður um hvernig staða dreifingar á bólu­efnum til Ís­lands á næstunni verður. „Ég held að við verðum ekki í neinum vand­ræðum með bólu­efni.“

Mikilvægt að nægur tími líði á milli

Heilsu­gæslan vinnur nú að tölvu­kerfi í kringum bólu­setningar til að komast að réttum tíma fyrir örvunar­skammt fyrir þá sem hafa verið bólu­settir. Að sögn Þór­ólfs þurfa að minnsta kosti þrír mánuðir að líða frá seinni sprautu til að ná fram bestu verkuninni en best sé þegar sex mánuðir eru liðnir.

Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin hefur gagn­rýnt þjóðir fyrir að bjóða upp á örvunar­skammta á meðan önnur lönd eru styttra á veg komin með bólu­setningar en stað­gengill sótt­varna­læknis sagði í við­tali við Frétta­blaðið fyrr í mánuðinum að það væri ekki annað rétt­lætan­legt en að setja ís­lensku þjóðina og inn­viði í for­gang.

Ekki ástæða til að gera bólusetningu að skyldu

Að­spurður um hvort hann telji að það sé ráð­lagt að gera bólu­setningu að skyldu, í ljósi þess að Banda­ríkin sam­þykktu á dögunum bólu­efni Pfizer að fullu og fóru í kjöl­farið að gera bólu­setningu að skyldu í auknum mæli, segir Þór­ólfur að hann telji það ekki ráð­lagt hér á landi.

„Ég hef alltaf verið and­snúin því að gera bólu­setningar að skyldu hér á landi og á­stæðan er sú að við erum bara með mjög góða þátt­töku í bólu­setningum og álit al­mennings um bólu­setningar hefur verið bara mjög já­kvætt,“ segir Þór­ólfur. „Þannig ég sé ekki á­stæðu til þess.“