Ísland fær 192 þúsund skammta af bóluefni Pfizer fyrir lok júní. Það dugir til að bólusetja um 96 þúsund manns. Frá þessu er greint í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu en framkvæmdastjóri Evrópusambandsins tilkynnti í morgun að Pfizer muni afhenda um 50 milljón fleiri skammta til Evrópu sen áður hafi verið reiknað með á öðrum ársfjórðungi.

Alls er búið að bólusetja rúmlega 30 þúsund manns með bóluefni Pfizer á Íslandi. Alls hafa verið gefnir tæplega 90 þúsund bóluefnaskammtar alls af þeim þremur bóluefnum sem eru í notkun á landinu, það er Pfizer, Moderna og AstraZeneca.