Dr. Anthony Fauci, helsti heilbrigðisráðgjafi Bandaríkjastjórnar Joe Biden hefur greinst með COVID-19.

Þetta kemur fram á vef nbcnews.com en að sögn bandarísku smitsjúkdómastofnunarinnar upplifir hann aðeins væg einkenni.

„Hann mun einangra sjálfan sig og vinna að heiman á meðan veikindunum stendur,“ segir í yfirlýsingu stofnunarinnar en Fauci sem er 81 árs gamall er að greinast með sjúkdóminn í fyrsta skipti.

Fauci greindist með hraðprófi en hann er full bólusettur og hefur hlotið tvo örvunarskammta af bóluefni. Hann hlaut fyrsta skammtinn af Moderna bóluefninu í sjónvarpsútsendingu eins og frægt er orðið.

Nafn Fauci hefur orðið nánast samvaxið faraldrinum en hann starfaði sem sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna á tímum Donald Trump áður en hann tók við starfi sínu sem heilbrigðisráðgjafi Joe Biden.

Covid smit í Bandaríkjunum eru enn áhyggjuefni en samkvæmt New York Times greinast enn yfir 100.000 smit á dag þar í landi.

Einnig er talið að þær tölur séu ívið lægri en þær raunverulega eru þar sem margir notast við heimapróf eða sleppa því einfaldlega að láta prófa sig.