Anthony Fauci, yfirmaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, hefur beðist afsökunar á fyrri ummælum sínum í garð breskra heilbrigðisyfirvalda.

Fauci hefur verið gagnrýndur fyrir að segja að bresk yfirvöld hafi stytt sér leið til að flýta leyfisveitingu fyrir bóluefni Pfizer og BioTech gegn COVID-19.

Þá sagði hann Breta ekki hafa skoðað öll gögn frá Pfizer í leyfisferlinu og að breska lyfjaeftirlitið hafi ekki skoðað bóluefnið eins vel og bandaríska hliðstæðan hygðist gera.

Hafi ekki ætlað að dæma aðferð Breta

Bretar urðu á miðvikudag fyrsta þjóðin í heiminum til að samþykkja notkun á bóluefni Pfizer og BioTech. Hyggjast stjórnvöld þar í landi hefja bólusetningar gegn COVID-19 á næstu dögum en Fauci gaf til kynna að stutt geti verið í að bóluefni verði samþykkt í Bandaríkjunum.

Fauci skipti um kúrs í gær og sagðist bera mikið traust til framgöngu Bretlands, bæði á vísindasviðinu og vinnu eftirlitsaðila þar í landi. Þá bætti hann við að hann ætli ekki að leggja gildisdóm á aðferð Breta.

„Staðreyndin er að okkar ferli tekur lengri tíma en það sem fer fram í Bretlandi,“ sagði Fauci í samtali við breska ríkisútvarpið BBC. „Ég ætlaði ekki að gefa í skyn að það væru hroðvirknisleg vinnubrögð þó það hafi hljómað þannig.“

Beiti ólíkum aðferðum

Breska lyfjaeftirlitið segir að stofnunin hafi farið ítarlega yfir gögnin á eins skömmum tíma og hægt var án þess að gefa neinn afslátt af kröfum sínum. Þá hafi það flýtt fyrir ferlinu að stofnunin hafi byrjað úttektarferli sitt í október.

BBC greinir frá því að breska og bandaríska lyfjaeftirlitið beiti ólíkum aðferðum þegar kemur að leyfisveitingum bóluefna. Í Bandaríkjunum sé gjarnan óskað eftir hráum gögnum frá framleiðendum sem stofnunin taki sér síðan tíma í að endurgreina.

Til samanburðar reiði breska lyfjaeftirlitið og eins lyfjastofnun Evrópu sig meira á útbúnar skýrslur og niðurstöður frá framleiðendum í sínu leyfisveitingarferli.