Tollverðir í höfninni í Cincinnati í Bandaríkjunum fundu gull að jafnvirði 9,7 milljóna króna í sendingu með fatnaði að því er skýrt var frá í gær.

Gullið fannst við reglubundið eftirlit með gegnumlýsingu að því er fréttastofa CBS greinir frá. Þegar sendingin var opnuð komu í ljós gullstangir og box með gullmolum. Sendingin er sögð hafa komið frá San Francisco og hafa verið á leið til Hong Kong.

Hreinleiki gullsins reyndist vera 98 prósent og verðmæti þess því 67.830 dollarar. Uppgefið virði sendingarinnar á fylgiskjölum var hins vegar aðeins 125 dalir. Skylt er að gera alríkisyfirvöldum sérstaklega grein fyrir sendingum sem eru yfir 2.500 dollara virði.