Þetta er alveg örugglega gert af góðum hug, að skilja pokana eftir fyrir Rauða krossinn, en ég veit ekki hvað er hægt að gera, fólk verður bara að átta sig á að það geti ekki skilið þetta eftir ef gámarnir eru fullir,“ segir Ingibjörg Erla Björnsdóttir, íbúi í Laugarneshverfi í Reykjavík.

Umræða varð á facebook-síðu hverfisins eftir að Erla birti þar mynd af yfir fullum fatagámi Rauð krossins. Ekki einungis var gámurinn troðfullur heldur hafði fólk skilið eftir fatapoka í kringum gáminn þegar það kom þeim ekki ofan í hann.

„Það gerist hér oft og iðulega að fólk fer að róta í pokum sem skildir eru eftir við gámana. Núna er búið að opna allt og tæta, fólk er að velja sér eitthvað úr pokunum,“ segir Erla.

Búið var að opna pokana sem skildir voru eftir við gáminn og róta í þeim.
Mynd/Ingibjörg Erla

Bíll fylltur af fötum fyrir Rauða krossinn

Þegar Erla fór út í morgun að mynda fatahrúguna við gáminn kom nágranni hennar út að ræða við hana. Hann býr í húsi á móti gámnum og sagðist eitt sinn hafa séð fólk koma á stórum bíl og taka alla pokana sem lágu við gáminn.

„Þau bara fylltu bílinn og keyrðu burt. Auðvitað veit ég ekki hvað þeim gekk til en dettur helst í hug að þetta sé einhver sem fer í gegnum fötin og selur þau svo á facebook eða eitthvað svoleiðis, en ég veit það ekkert,“ segir Erla.

Spurð hvað sé til ráða segir Erla að auðveldast væri ef að fólk bæri virðingu fyrir því þegar gámurinn væri fullur. „Og færi þá bara aftur með dótið heim til sín og kæmi seinna.“

Þá segir hún að vanalega sé fatagámurinn tæmdur á fimmtudögum, en að betra þætti henni ef gámurinn yrði tæmdur á föstudögum. „Gámarnir, bæði þessi og hinir sem eru þarna, fyllast allar helgar. Oft er mikið skilið eftir en það hefur aldrei verið eins rosalegt og núna,“ segir Erla.

„Ég hef aldrei séð þetta svona slæmt þó þetta sé oft slæmt. Þetta er mest þegar það er gott veður, þá eru allir að taka til hjá sér en þetta er viðvarandi plága,“ segir Erla.

Fötin eyðileggist og fari í urðun

„Aðalmálið er að þegar það er búið að tæta þetta svona upp úr og þetta liggur úti um allt þá er þetta í flestum tilfellum bara tekið og urðað, þetta er ekki lengur nýtingarhæft. Ég tala nú ekki um þegar það er rigning þá er þetta bara ónýtt,“ segir Erla.

„Og það hefur gerst að það hafi verið tæmt úr pokum og fötin fuku um allar götur, veltust um þarna skítug og blaut. Þá kom bara hreinsunardeildin hjá Reykjavíkurborg og hirti þetta og þetta fór bara allt á urðunarstað,“ segir Erla að lokum.