Þórir Gunnars­son lista­maður telur fötlun sína á­stæðu þess að hann fái ekki inn­göngu í Lista­há­skólann, að því er fram kom í við­tali við hann í Frétta­blaðinu. Þórir hefur tvisvar sótt um.

„Ég get þó sagt í sam­hengi við­talsins við Þóri, að LHÍ tekur einungis um 25 prósent um­sækj­enda inn, og við erum því með lægsta inn­töku­hlut­fall há­skóla á Ís­landi. Við bjóðum með öðrum orðum einungis broti af þeim sem sækja um, skóla­vist,“ segir Fríða.

Hópur um­sækj­enda sé breyti­legur milli ára, bæði varðandi fjölda, styrk­leika og breyti­leika.

Að­spurð segir Fríða að LHÍ hafi boðið fötluðum skóla­vist.

„Nem­endur eru teknir inn í gegnum um­sóknar­ferli á sam­keppnis­grund­velli, horft er til um­sókna í fyrstu um­ferð og síðan taka við­töl og eða aðrir mats­þættir við, allt eftir eðli hverrar list­greinar,“ segir hún.

Þórir er ekki með stúdents­próf en inn­töku­skil­yrði í mynd­listar­nám við Lista­há­skólann miða við að um­sækj­endur hafi lokið stúdents­prófi eða sam­bæri­legu námi.

„Miðað er við að umsækjendur í háskóla á Íslandi hafi stúdentspróf. Það er þó ekki ófrávíkjanlegt.“

Fríða segir stúdents­próf þó ekki ó­frá­víkjan­lega kröfu. Sér­tækar náms­leiðir fyrir fatlaða hafi verið til um­ræðu undan­farin ár, en enn sem komið er hafi LHÍ ekki svig­rúm hvað varðar fjár­mögnun og hús­næði til að mæta slíku, utan þeirra náms­leiða sem þegar séu í boði.

„Við höfum þó aldrei skorast undan sam­tali um slíkar leiðir og þróun þeirra,“ segir rektor.