Þórir Gunnarsson listamaður telur fötlun sína ástæðu þess að hann fái ekki inngöngu í Listaháskólann, að því er fram kom í viðtali við hann í Fréttablaðinu. Þórir hefur tvisvar sótt um.
„Ég get þó sagt í samhengi viðtalsins við Þóri, að LHÍ tekur einungis um 25 prósent umsækjenda inn, og við erum því með lægsta inntökuhlutfall háskóla á Íslandi. Við bjóðum með öðrum orðum einungis broti af þeim sem sækja um, skólavist,“ segir Fríða.
Hópur umsækjenda sé breytilegur milli ára, bæði varðandi fjölda, styrkleika og breytileika.
Aðspurð segir Fríða að LHÍ hafi boðið fötluðum skólavist.
„Nemendur eru teknir inn í gegnum umsóknarferli á samkeppnisgrundvelli, horft er til umsókna í fyrstu umferð og síðan taka viðtöl og eða aðrir matsþættir við, allt eftir eðli hverrar listgreinar,“ segir hún.
Þórir er ekki með stúdentspróf en inntökuskilyrði í myndlistarnám við Listaháskólann miða við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.
„Miðað er við að umsækjendur í háskóla á Íslandi hafi stúdentspróf. Það er þó ekki ófrávíkjanlegt.“
Fríða segir stúdentspróf þó ekki ófrávíkjanlega kröfu. Sértækar námsleiðir fyrir fatlaða hafi verið til umræðu undanfarin ár, en enn sem komið er hafi LHÍ ekki svigrúm hvað varðar fjármögnun og húsnæði til að mæta slíku, utan þeirra námsleiða sem þegar séu í boði.
„Við höfum þó aldrei skorast undan samtali um slíkar leiðir og þróun þeirra,“ segir rektor.