Fatlað fólk bíður að meðaltali í rúm fjögur ár, eða 49 mánuði eftir húsnæði hjá Reykjavíkurborg.

Þetta kemur fram í svari frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í dag eru 138 einstaklingar á biðlista hjá borginni og lítur velferðarsvið borgarinnar svo á að allar umsóknir um húsnæði fyrir fatlað fólk sem brýnar umsóknir.

Það sem af er ári hafa 29 einstaklingar fengið úthlutað húsnæði í fimm nýjum íbúðakjörnum.

Jón Þór Víglundsson, fjölmiðlafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), segir kerfið ekki fyrirsjáanlegt. Þetta séu ekki biðlistar þar sem fólk færist upp eins og gengur og gerist.

Fatlað fólk geti ekki reitt sig á biðlistana og viti í raun ekkert hvar þau standi gagnvart þeim.

„Það eru alltof fáar íbúðir, þörfin er mikil og fer ekkert minnkandi,“ segir Jón Þór.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru sjö íbúðarkjarnar á framkvæmdastigi en í hverjum þeirra verði sex íbúðir auk starfsmannaíbúðar.

„Það eru Félagsbústaðir sem sjá um byggingu eða kaup á íbúðum inn í íbúðarkjarna fyrir hönd velferðarsviðs."