Ætla má að fjöldi fatlaðs fólks sé beitt ofbeldi á Íslandi og að í einhverjum tilvikum séu þau ítrekað þolendur, jafnvel reglulega. Frá þessu er greint í nýútkominni skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra (RLS), Ofbeldi gegn fötluðu fólki á Íslandi. Í skýrslunni er bent á að miðað við fyrirliggjandi rannsóknir rati aðeins lítill hluti ofbeldismála gegn þessum hópi fólks inn í réttarvörslukerfið. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir megi eins draga þá ályktun að fatlað fólk njóti ekki sömu stöðu eða réttinda hvar varðar réttarvörslu.
Ekki hægt að sækja upplýsingar um fötlun í LÖKE
Í skýrslunni kemur fram að leitast hafi verið eftir því að kanna umfang ofbeldis gegn fötluðu fólki í skráningarkerfi lögreglu, LÖKE, en að ekki hafi verið hægt að sækja slíkar upplýsingar vegna þess að ekki sé þess neins staðar getið að um sé að ræða fatlaðan einstakling.
Til þess þurfi heimild þar sem um heilsufarsupplýsingar er að ræða. Því er ekki unnt að draga saman fjölda mála er varða fatlaða einstaklinga.
„Það er eitt af vandamálunum en það sem við bendum á er hvernig er hægt að bæta skráningar í þessum málaflokki, bæði hjá lögreglu og öðrum,“ segir Runólfur Þórólfsson, yfirlögregluþjónn, í samtali við Fréttablaðið en hann og hans teymi unnu skýrsluna fyrir hönd embættis Ríkislögreglustjóra.
Hann segir að hvað varðar lögregluna þá þurfi að bæta skráninguna í LÖKE-kerfinu
„Til að sjá betur vandann. En það er bara hluti af þessu. Því það þarf að sérsníða nálgunina til þolenda ofbeldis sem eru fatlaðir því þau eru ólíklegri samkvæmt erlendum rannsóknum til að segja frá því ofbeldi sem þau verða fyrir,“ segir Runólfur.
Í skýrslunni segir að vilji sé til að skorða hvernig væri hægt að tilgreina slíkar upplýsingar við skráningu mála í lögreglukerfið án þess að brjóta gegn persónuvernd. Þannig mætti greina betur fjölda tilkynninga um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Þá er það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að talsverðra breytinga sé þörf til þess að fá fram upplýsingar um umfang vandans á Íslandi.
Vitundarvakning framundan
Að sögn Runólfs er skýrslan sé svokölluð stefnumiðuð greiningarskýrsla sem hafi verið tekin saman til að reyna að átta sig á umfangi vandans og hvaða leiðir séu bestar til að bæta þjónustuna.
Hann segir að næstu skref meðal lögreglunnar sé meðal annars vitundarvakning meðal lögreglumanna, að fræða um þá sérstöku nálgun sem þarf að beita í þessum málaflokki.
„Það er framhald af þeirri vinnu sem er hafin í tengslum við heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi sem hefur verið tekið í gegn líka. Í framhaldi af þessu þá nýtum við þá reynslu í þessa vinnu,“ segir Runólfur.
Hann segir að bæði verði litið til starfandi lögreglumanna og til lögreglunámsins í Háskólanum á Akureyri.
Lítið vitað um ofbeldi gegn fötluðum körlum
Í skýrslunni er vakin athygli á því að rannsóknir síðustu ára á Íslandi hafi einkum beinst að stöðu fatlaðra kvenna og reynslu þeirra af einstaklings- og stofnanabundnu ofbeldi. Þá hafi fáar rannsóknir beinst sérstaklega að fötluðum börnum sem þolendum ofbeldis og að umfang ofbeldi gegn fötluðum körlum sé nær óþekkt.
Þá segir að þær rannsóknir til séu leiði í ljós að eins sé það algengt að fatlaðar konur sem séu beittar ofbeldi tilkynni það ekki til lögreglu. Þá sé það þekkt að þolendur óttist að þeim verði ekki trúað.
„Fyrirliggjandi kannanir bendi til þess að í meirihluta tilvika hafi gerendur ekki verið sóttir til saka, og enn síður dæmdir. Samkvæmt rannsóknum þessum virðist algengt að fatlaðar konur fái ekki viðeigandi aðstoð til að takast á við afleiðingar ofbeldisins og að aðgengi að úrræðum fyrir brotaþola sé takmarkað,“ segir í skýrslunni.
Fötluð börn fjórum sinnum líklegri til að vera beitt ofbeldi
Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra er einnig vísað í erlendar rannsóknir um ofbeldi gegn fötluðu fólki, meðal annars frá breska læknaritinu The Lancet og frá bresku tölfræðistofnuninni. Samkvæmt þeim niðurstöðum eru fötluð börn fjórum sinnum líklegri til að vera beitt ofbeldi en ófötluð börn. Þá er sérstaklega talað um börn með þroskahömlun.