Réttindagæsla fatlaðs fólks verður til stuðnings og aðstoðar á öllum kjörstöðum í sveitarstjórnarkosningum sem fram fara í dag. Réttargæslan verður á kjörstöðum frá því klukkan níu í dag til klukkan tíu í kvöld þegar kjörstöðum verður lokað.

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp, segir ástæðu þess að réttargæslan verði á svæðinu þá að fatlað fólk hafi átt í miklum vanda með að nýta kosningarétt sinn.

„Það er bæði vegna fordóma í samfélaginu og hindrana á kjörstöðum,“ segir Inga. Hún segir hindranirnar geta verið af ýmsum toga. „Þær geta snúið að því að dregið sé úr einstaklingunum, að aðgengi sé ekki nægilega gott, að þau fái ekki nægar upplýsingar um kosningarnar eða næga aðstoð á kjörstað, svo dæmi séu tekin,“ segir hún.

Inga segir að um áramót hafi tekið gildi lagabreyting sem heimili fólki með þroskahömlun eða skyldar fatlanir að nýta sér aðstoð á kjörstað. Áður hafi aðstoð á kjörstað verið bundin við tvær tegundir fatlana, fólk sem gat ekki notað hendur sínar og blinda og sjónskerta.

„Með breytingunni geta allir fatlaðir nýtt sér aðstoð á kjörstað sem felst til dæmis í því að komast á kjörstað, fara inn í kjörklefann, merkja við, setja atkvæðið í kjörkassann eða bara hvað það sem fólk þarf aðstoð með,“ útskýrir Inga.

Þá segir hún að í breytingunum felist einnig meira frelsi til fatlaðra kjósenda þegar kemur að aðstoð á kjörstað. „Fólk getur valið hvort það nýtir sér aðstoð réttindagæslunnar eða það getur tekið með sér aðstoðarfólk sem það þekkir og treystir,“ segir Inga.

Inga segir að fyrir fjölda einstaklinga með fötlun geti það eitt að fara á kjörstað verið ógnvænlegt, erfitt og jafnvel kvíðavaldandi. „Við vitum um dæmi þess úr síðustu kosningum þar sem það tók einstakling tvær klukkustundir að kjósa. Það eru margir sem þurfa að hafa mikið fyrir því að kjósa og þess vegna er réttindagæslan á vaktinni. Til þess að tryggja það að fólk fái að nýta kosningaréttinn sinn, sem er einn dýrmætasti réttur sem við eigum.“

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, segir viðmót á kjörstað sérlega mikilvægt þegar kemur að fötluðum kjósendum. „Ekki bara aðgengið heldur móttökurnar og framkvæmdin öll,“ segir hann.

„Félagsmálaráðherra sendi kjörstjórnum sérstaka hvatningu um að vanda sig í öllu sem lýtur að upplýsingagjöf og viðmóti. Okkur þykir mjög vænt um það og við vonum að þetta hafi áhrif vegna þess að við höfum fengið ábendingar um að fólki finnist ekki hafa verið tekið á móti því eins og því þætti eðlilegt,“ segir Árni.

Þroskahjálp hefur undanfarið boðið einstaklingum upp á sýndarveruleikaþjálfun sem ætlað er að draga úr kvíða fyrir kosningunum og til að hjálpa fólki að undirbúa sig. Um er að ræða sýndarveruleika sem sýnir alvöru kjörstað þegar einstaklingurinn setur upp tölvugleraugu.

„Það hafa margir nýtt sér þetta en einstaklingum með fötlun getur þótt erfitt að fara á kjörstað og þetta er ein leið til að auðvelda þeim það,“ segir Anna Lára Steindal, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Þroskahjálp.

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, verkefnastjóri
Anna Lára Steindal, verkefnastjóri