Norð­snjáldri fannst rekinn dauður við bæinn Höfða II, skammt sunnan við Greni­vík í Eyja­firði, í síðustu viku. Norð­snjáldri er af ætt svín­hvala og var dýrið við Greni­vík 4,73 metrar að lengd.

Í til­kynningu frá Náttúru­minja­safni Ís­lands kemur fram að afar fá­títt sé að norð­snjáldra reki á land við strendur Ís­lands. Raunar er að­eins vitað um átta önnur til­vik síðan Haf­rann­sóknar­stofnun hóf skráningu hval­reka með skipu­lögðum hætti um 1980. Varð fyrsti stað­festi fundurinn árið 1992 við bæinn Ós í Breið­dal og síðast árið 2018 þegar tarf rak á land í Höfða­vík í Vest­manna­eyjum.

Talið er að dýrið sem fannst í Eyja­firði hafi verið full­orðinn tarfur, en þeir geta orðið 15 til 30 ára gamlir að jafnaði. Norð­snjáldrar finnast í Norður-At­lants­hafi og halda sig mest fjarri landi djúpt á hafi úti. Þeir eru sagðir styggir og er ekki vitað um stofn­stærð þeirra, hvorki hér við land né hjá Al­þjóða­n­áttúru­verndar­sam­bandinu eða Um­hverfis­stofnun Evrópu­sam­bandsins.

Í til­kynningu Náttúru­fræði­stofnunar kemur fram að sér­fræðingur á vegum Haf­rann­sókna­stofnunar, Sverrir Daníel Hall­dórs­son, hafi farið á vett­vang hval­rekans á­samt úti­bús­stjóra stofnunarinnar á Akur­eyri, Hlyni Péturs­syni, og mældu þeir hvalinn og tóku sýni til nánari rann­sókna.

„Ekki var annað að sjá en að norð­snjáldrinn væri í góðu líkam­legu á­standi, en engar fæðu­leifar fundust í maga hans og ekkert plast heldur, sem að undan­förnu hefur fundist í tölu­verðu magni í mögum hvala af svín­hvala­ætt. Dánar­or­sök er ó­kunn.“

Hræið var urðað í fjöru þar sem það verður látið rotna og verður beina­grindin hirt síðar og rann­sökuð. Þá kemur til greina að nota hana í sýningar­haldi, að sögn Hilmars J. Mal­mquist, for­stöðu­manns Náttúru­minja­safnsins, en þess má geta að á Hvala­safninu á Húsa­vík er beina­grind norð­snjáldra til sýnis.

Hræið var urðað þar sem það mun rotna en beinagrindin verður hirt síðar.
Mynd/Stefani Lohman