Stór hluti af fá­tækari ríkjum heimsins sem fá bólu­efni í gegnum hjálpar­sam­tök hafa ekki fengið nóg af bólu­efnum til að halda bólu­setningum gangandi, sam­kvæmt al­þjóða­heil­brigðis­stofnuninni (WHO).

Dr. Bruce Aylward, ráð­gjafi hjá WHO, segir í sam­tali við BBC að Covax- verk­efnið hefur skilað 90 milljón bólu­efnum til 131 ríkja en það sé hins vegar alls ekki nóg. Ríkin þurfa að fá mun meira af bólu­efni til að geta náð hjarðó­næmi og varið borgara sína fyrir veirunni. Skorturinn er mestur í Afríku um þessar mundir þar sem fjöl­mörg ríki eru að sjá aukningu í smitum.

Cyril Ramap­hosa, for­seti Suður-Afríku, kallaði eftir því í dag að efna­meiri lönd myndu láta af því að safna til sín bólu­efnum sem ríkin ætla ekki að nota.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, með Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku á leiðtogafundi G7 ríkjanna í síðustu viku.
Ljósmynd/AFP

Afríka fengið bóluefni fyri tvö prósent íbúa

Einungis 40 milljón bólu­efna­skammtar hafa skilað sér til Afríku sem nær ekki einu sinni til 2 prósent íbúa, sagði Ramap­hosa en BBC greinir frá. Hann sagði að ríkis­stjórn Suður-Afríku væri að vinna náið með Co­vax til að reyna fá fleiri bólu­efna­skammta til landsins.

Co­vax-verk­efninu var hrundið af stað í fyrra til að tryggja fá­tækari ríkjum bólu­efni en efna­meiri lönd niður­greiða bólu­efnið fyrir fá­tækari ríkin.

Ísland skilað bóluefni fyrir tíu þúsund manns

Söfnunar­á­tak UNICEF fyrir dreifingu á bólu­efni meðal efna­minni ríkja heims hefur nú staðið yfir í tæpar tvær vikur á Íslandi. Tekist hefur að safna fyrir dreifingu fyrir vel yfir tíu þúsund manns, sam­kvæmt Birnu Þórarins­dóttur fram­kvæmdar­stjóra UNICEF.

„Þetta hefur gengið vonum framar,“ segir Birna. „Við erum með mjög öflug sam­starfs­fyrir­tæki eins og Krónuna, Te og kaffi, Lindex og BM Vall­á sem eru öll í fjár­öflun með sínum við­skipta­vinum og gengur mjög vel.“

„En betur má ef duga skal og við ætlum að halda þessu á­taki,“ segir Birna og bendir á að hægt sé að leggja fjár­öfluninni lið með því að senda SMS-ið CO­VID í síma­númerið 1900.

„Við njótum gríðar­legra for­réttinda fyrir það að búa hérna og for­réttindi eru vand­með­farin. Þau eru best nýtt til að hjálpa þeim sem eru ekki jafn lán­samir og við,“ segir Birna.

Birna segir það á­nægju­legt að sjá þann með­byr sem á­takið hefur fengið en al­gengt er að fólk sýni því stuðning eftir að hafa sjálft fengið bólu­setningar. UNICEF leiðir dreifingu bólu­efna fyrir hönd CO­VAX-sam­starfsins.