Stór hluti af fátækari ríkjum heimsins sem fá bóluefni í gegnum hjálparsamtök hafa ekki fengið nóg af bóluefnum til að halda bólusetningum gangandi, samkvæmt alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).
Dr. Bruce Aylward, ráðgjafi hjá WHO, segir í samtali við BBC að Covax- verkefnið hefur skilað 90 milljón bóluefnum til 131 ríkja en það sé hins vegar alls ekki nóg. Ríkin þurfa að fá mun meira af bóluefni til að geta náð hjarðónæmi og varið borgara sína fyrir veirunni. Skorturinn er mestur í Afríku um þessar mundir þar sem fjölmörg ríki eru að sjá aukningu í smitum.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, kallaði eftir því í dag að efnameiri lönd myndu láta af því að safna til sín bóluefnum sem ríkin ætla ekki að nota.

Afríka fengið bóluefni fyri tvö prósent íbúa
Einungis 40 milljón bóluefnaskammtar hafa skilað sér til Afríku sem nær ekki einu sinni til 2 prósent íbúa, sagði Ramaphosa en BBC greinir frá. Hann sagði að ríkisstjórn Suður-Afríku væri að vinna náið með Covax til að reyna fá fleiri bóluefnaskammta til landsins.
Covax-verkefninu var hrundið af stað í fyrra til að tryggja fátækari ríkjum bóluefni en efnameiri lönd niðurgreiða bóluefnið fyrir fátækari ríkin.
Ísland skilað bóluefni fyrir tíu þúsund manns
Söfnunarátak UNICEF fyrir dreifingu á bóluefni meðal efnaminni ríkja heims hefur nú staðið yfir í tæpar tvær vikur á Íslandi. Tekist hefur að safna fyrir dreifingu fyrir vel yfir tíu þúsund manns, samkvæmt Birnu Þórarinsdóttur framkvæmdarstjóra UNICEF.
„Þetta hefur gengið vonum framar,“ segir Birna. „Við erum með mjög öflug samstarfsfyrirtæki eins og Krónuna, Te og kaffi, Lindex og BM Vallá sem eru öll í fjáröflun með sínum viðskiptavinum og gengur mjög vel.“
„En betur má ef duga skal og við ætlum að halda þessu átaki,“ segir Birna og bendir á að hægt sé að leggja fjáröfluninni lið með því að senda SMS-ið COVID í símanúmerið 1900.
„Við njótum gríðarlegra forréttinda fyrir það að búa hérna og forréttindi eru vandmeðfarin. Þau eru best nýtt til að hjálpa þeim sem eru ekki jafn lánsamir og við,“ segir Birna.
Birna segir það ánægjulegt að sjá þann meðbyr sem átakið hefur fengið en algengt er að fólk sýni því stuðning eftir að hafa sjálft fengið bólusetningar. UNICEF leiðir dreifingu bóluefna fyrir hönd COVAX-samstarfsins.