Ásdís Björgvinsdóttir er ein fjögurra kvenna sem sitja í basarnefnd Hringsins þetta árið og segir hún undirbúning hafa verið á fullu stóran hluta árs en um tíma ríkti ákveðin óvissa um afdrif basarsins enda mætir fjöldi manns til að styrkja gott málefni og þegar samkomutakmörk miðast við 10 manns eru góð ráð dýr.

„Basarinn hefur verið haldinn á Grand Hótel fyrsta sunnudaginn í nóvember ár hvert. Þar hefur aðsókn verið mikil og fólk staðið í röð úti til að komast inn. Nú er auðvitað ekki hægt að safna svo mörgum saman á einn stað svo við vorum búnar að velta því töluvert fyrir okkur hvað við gætum gert.“

Ef ekki má safna fjölda fólks saman á einn stað á einum degi eins og vaninn hefur verið er lausnin væntanlega að lengja í opnunartímanum.

Það varð ofan á og mun basarinn standa í tvær vikur á neðri hæð Smáralindar.


Margir koma ár eftir ár


„Við erum afskaplega þakklátar Smáralindinni sem lánar okkur pláss í hálfan mánuð á neðri hæð Smáralindar rétt hjá jólatrénu og þar munu Hringskonur standa vaktina næstu tvær vikurnar, segir Ásdís en basarinn opnar í dag, laugardag og stendur til sunnudagsins 6. desember ef eitthvað verður eftir til að selja eins og Ásdís orðar það.

Hér má sjá úrval þess jólaskrauts sem Hringskonur hafa útbúið og er til sölu á basarnum í Smáralind.

„Það hafa margir komið til okkar ár eftir ár og ég get ekki ímyndað mér annað en þeir mæti í Smáralindina,“ segir hún og bætir við að væntanlega nái þær jafnframt til nýs markhóps á nýjum stað.


Kökurnar gríðarlega vinsælar


Aðventan er aðalfjáröflunartími Hringskvenna en auk jólabasarsins eru þær vanar að standa fyrir jólakaffi og happdrætti í Hörpu fyrir jólin sem ekki verður hægt að halda nú í ár.

„Við getum þó alla vega haldið basarinn með þessu sniði. Við hleypum auðvitað bara inn eftir reglum og erum með handspritt og svo framvegis. Kökurnar hafa alltaf verið gríðarlega vinsælar og selst í hundruða tali og um helgar munum við bjóða þær til sölu í Smáralind og fáum lánaða kæla til að geyma þær í. Það er fólk sem mætir ár hvert og kaupir kökur og hefur búið til þá hefð að halda fjölskylduveislu þennan sama dag,“ segir Ásdís og segir enga ástæðu til að rjúfa þá hefð í ár.


Jólalöberarnir alltaf vinsælir


Auk kakanna segir Ásdís handgerðu jólavörurnar einnig rjúka út ár hvert.

„Jólalöberarnir eru alltaf vinsælir og einnig dúkarnir undir jólatrén og svo eru það Bucilla vörurnar,“ segir Ásdís.

Þegar blaðamaður spyr út í hvað falli undir Bucilla vörur útskýrir Ásdís að um sé að ræða dúka undir jólatré, jólasokka og annað slíkt sem saumað sé saman úr filti með perlum og pallíettum.

Allt fé sem Hringskonur safna rennur óskipt í Barnaspítalasjóð Hringsins. Fréttablaðið/Ernir

„Í ár verðum við líka með poka sem hægt er að setja jólagjafir í og koma þannig í stað jólapappírs. Pokarnir eru úr striga og skreyttir með útsaumuðum myndum og þá er hægt að nota ár eftir ár sem er auðvitað umhverfisvænt. Við vorum með eitthvað af þessum pokum í fyrra og það fór allt saman svo við erum með meira núna.“


Tvenn meðmæli þarf


Ásdís hefur starfað með kvenfélagi Hringsins frá upphafi árs 2015 og í basarnefndinni frá því í fyrra.

Það var vinkona Ásdísar sem stakk upp á því að þær gengju til liðs við Hringinn.

„Ég var alveg til í það en hélt það væri erfitt að komast inn.“

Með umsókn í Hringinn þurfa að fylgja meðmæli frá tveimur félagskonum.

„Stuttu eftir að við ræddum þetta var ég að ganga frá í sal með einni sem sagði: „Við gerum þetta svona hjá Hringnum.““

Ásdís hugsaði þá með sér að þarna væri komin ein sem hún gæti beðið um meðmælin fyrir umsókn sína.

„Hún tók vel í það og bað aðra sem hún þekkir að mæla með okkur tveimur og við komumst þá báðar inn í janúar 2015.“


Vikulegir fundir


Hringskonur hittast hvern þriðjudag frá klukkan eitt til fjögur og er það siður sem lengi hefur verið við lýði, en eftir óskir frá þeim sem stunda dagvinnu, var bætt við fundum á mánudögum frá klukkan fjögur til átta.

„Nú er ég hætt að vinna en ég hef þó haldið mig við mánudagsfundina. Á fundunum erum við mikið að sauma út, löbera og púða og annað slíkt. Við prjónum líka eitt og annað, peysur og hin vinsælu heimfararsett fyrir ungbörn. Svo var nýverið ákveðið að prjóna líka stærri peysur á eldri börn frá eins árs og upp í sjö, átta ára.“

Vörurnar hafa verið seldar í húsnæði Hringsins í Nethyl en í ljósi aðstæðna opnuðu Hringskonur nýverið fyrir netsölu á heimasíðu félagsins hringurinn.is og segir Ásdís söluna þar aldreilis hafa tekið við sér.

Fallegt handverk Hringskvenna.Fréttablaðið/Ernir