Hvergi hefur húsnæðisverð hækkað jafn mikið og á Íslandi síðustu tíu ár, samkvæmt nýrri samantekt Eurostat um þróun húsnæðisverðs. Þar hefur Ísland naumt forskot á Eistland með rúmlega 130 prósenta hækkun frá ársbyrjun 2010 til fyrsta ársfjórðungs þessa árs.

Á fjögurra ára tímabili frá 2011 var húsnæðisverð á stöðugri niðurleið en frá árinu 2015 hefur húsnæðisverð hækkað jafnt og þétt. Leiguverð hefur hins vegar haldist talsvert stöðugra og farið upp á hverjum ársfjórðungi í tíu ár.

Mesta hækkunin á fasteignaverði innan Evrópu átti sér stað á Íslandi, en næst kemur Eistland með tæplega 127 prósenta hækkun og Lúxemborg með 108 prósenta hækkun á tíu ára tímabili. Mesta rýrnunin í fasteignaverði átti sér stað í Grikklandi, Ítalíu, Kýpur og á Spáni.

Samkvæmt sömu tölfræði hefur leiguverð á Íslandi hækkað um tæp 70 prósent á þessu tíu ára tímabili. Mesta hækkunin á leiguverði innan Evrópu á þessu tímabili er í Eistlandi, þar sem leiguverð er búið að hækka um 124 prósent. Næst kemur Litháen með 109 prósenta hækkun á leiguverði en Ísland er í þriðja sæti á þeim lista.