Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa hækkað mikið á undanförnum áratug og eru háir í alþjóðlegum samanburði. Sveitarfélög landsins innheimta rúmlega 28 milljarða króna í ár, en árið 2012 innheimtu þau 14 milljarða. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins.

Aðeins tæplega 20 prósent af húsnæði er atvinnuhúsnæði, en engu að síður telur það tæplega 56 prósent af heildarskattinum. Vegin meðalskattprósenta á atvinnuhúsnæði er 1,56 prósent, en aðeins 0,23 af íbúðar­húsnæði. Nærri helmingur sveitarfélaganna er með skatthlutfallið í löglegu hámarki, 1,65 prósentum, og Reykjavíkurborg, þar sem um helmingur heildarverðmætis atvinnuhúsnæðis er staðsettur, er mjög nálægt hámarkinu.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur samtakanna, segir að fasteignaverðið sjálft hafi þrýst sköttunum upp á undanförnum árum og sveitarfélögin hafi ekki brugðist við með því að lækka prósentuna. Á síðustu sex árum hafi skattarnir hækkað um 68 prósent, en verðmætasköpun hagkerfisins einungis um 27 prósent. Þetta leggist illa á fyrirtæki í öllum greinum sem þurfa rými og hafnar á endanum á heimilunum sem greiða fyrir með hærra verðlagi.

„Sveitarfélögin eru að taka sífellt stærri hluta af kökunni með þessari skattlagningu,“ segir Ingólfur. „Hlutur sveitarfélaganna í hagstjórninni hefur verið að stækka og þau verða að axla sína ábyrgð. Þetta er einn af þeim hlutum sem skapa samkeppnishæfnina fyrir okkar fyrirtæki. Með lækkun skattanna væri hægt að örva efnahagslífið til vaxtar og skapa störf sem við þurfum verulega á að halda nú eftir niðursveifluna undanfarið.“

Ingólfur_Bender.jpg

Ingólfur Bender aðalhagfræðingur SI

Árið 2019 voru tekjur sveitarfélaganna af fasteignasköttum 0,9 prósent af landsframleiðslu. Er þetta hærra en gengur og gerist á Norðurlöndunum og í Evrópu. Í Svíþjóð og Finnlandi er hlutfallið 0,4 prósent og 0,2 í Noregi.

Þrátt fyrir áskoranir hafa aðeins 6 af 69 sveitarfélögum landsins lækkað skattprósentu sína á þessu ári, þar á meðal Reykjavík um 0,05 prósent. En eitt þeirra, Grindavík, hækkaði sinn skatt um 0,13 prósent.

Ingólfur segir jákvætt að Reykjavík hafi lækkað, en að það þurfi miklu meira til að hafa alvöru áhrif. Bendir hann á að tvö nágrannasveitarfélög með mikið af atvinnuhúsnæði hafi verið til fyrirmyndar. Það er Hafnarfjörður þar sem prósentan var í hámarki árið 2017 en er nú 1,4 og Kópavogur, sem lækkaði nýlega niður í 1,47 prósent.

Almennt séð hefur landsbyggðin hins vegar verið eftirbátur þegar kemur að lækkunum skattanna. Til að mynda eru Skagafjörður, Ísafjörður, Múlaþing og Fjarðabyggð í hámarkinu og Akureyri nálægt því. „Við furðum okkur á þessu því að samkeppnishæfni þeirra er skert með þessum hætti líkt og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ingólfur. „Fyrir­tæki þurfa á því að halda að hafa lága skattprósentu.“