„Það hefur verið einhver sala á eignum og það er verið að byggja og verið að endurgera. Ætli það sé ekki útskýringin,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, en fasteignamat íbúða hækkaði mest í hreppnum á landsvísu, um hartnær 40 prósent.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 20 prósent frá yfirstandandi ári samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2023, sem kynnt var á þriðjudag.

Um 100 manns búa í hreppnum, sem er dæmigert landbúnaðarsvæði með sterkri skógræktarhefð. Þá er veðurblíðan í dalnum þekkt.

„Það er allt að gerast hér,“ segir sveitarstjórinn stoltur. „Við vorum að fara yfir tölfræðina yfir aðsóknina að Hengifossi og fyrir Covid þá komu um fimm þúsund manns í maímánuði. Hún var átta þúsund núna. Svona tölur sér maður um allt sveitarfélag,“ segir Helgi, en brátt mun rísa þjónustuhús við Hengifoss og nýtt hótel er í burðarliðnum.