Vaxtaumhverfið á fasteignamarkaði hefur hreyft við fólki sem færir sig hratt yfir í verðtryggð lán. Verðlækkunarferlið á fasteignamarkaði sem hófst um mitt síðasta ár heldur áfram.

Verð á einbýli jafnt og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu fer lækkandi, sem gefur til kynna að fasteignamarkaðurinn sé heldur að kólna frá því sem var á fyrri hluta síðasta árs.

Þó er salan enn með ágætum, einkum og sér í lagi í fjölbýlishúsum. Breytingarnar eru mun minni úti á landi.

Þetta staðfesta nýjar tölur úr mælaborði Deloitte, sem byggja á sölutölum frá Þjóðskrá Íslands, en þær benda til þess að verðlækkunarferlið, sem hófst um mitt síðasta ár, haldi áfram.

„Það mátti búast við þessu í því vaxtaumhverfi sem við lifum í um þessar mundir. Ör hækkun vaxta bítur frá sér,“ segir Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreindar hjá Deloitte.

Ef horft er fyrst til þróunar á verði og sölu íbúða í fjölbýli, má sjá af tölum Deloitte að fermetraverð hefur að meðaltali lækkað úr 737 þúsundum króna í nóvember á síðasta ári í 709 þúsund í desember. Það er tæplega fjögurra prósenta verðlækkun.

Fleiri kaupsamningar voru þó gerðir í fjölbýli í desember en nóvember, alls 351 og hafa þeir ekki verið fleiri í þeim mánuði frá 2019. Fjölgunin nemur ellefu prósentum.

Dýrasta íbúðin í fjölbýli í desember var á Grettisgötu 53B og seldist á 230 miljónir króna.

Á sama tíma og samið var um fleiri kaup á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu á milli umræddra mánaða, fækkaði kaupsamningum í einbýli um sextán prósent. Einungis 67 kaupsamningar voru gerðir í þeim eignaflokki.

Dýrasta einbýlishúsið í desember síðastliðnum reyndist vera í Blikanesi 22 í Garðabæ. Það einbýlishús var selt á 295 milljónir króna.

„Það sem er að gerast við þessar aðstæður er að bankarnir eru orðnir miklu grimmari en áður gagnvart kaupendum,“ segir Ýmir Örn og bætir við: „Það er erfiðara en áður að komast í gegnum greiðslumat.“

Viðbrögð fólks séu að breyta um lánaflokka. „Það heldur uppi kaupgetunni með því að breyta yfir í verðtryggt lán,“ segir Ýmir Örn, „en nærri níutíu prósent lána eru nú orðin verðtryggð lán. Það er brostinn á flótti frá óverðtryggðu lánunum,“ segir Ýmir Örn Finnbogason.

Nánar á Fréttavaktinni
á Hringbraut í kvöld.