Verið er að breyta farvegi Búðarár á Seyðisfirði og grafa skurð ofan við Botnahlíð til þess að létta á farveginum og minnka líkur á aurskriðum.

Þetta er hluti af þeim bráðabirgðaframkvæmdum sem unnið hefur verið að í vetur, en framtíðarvarnir verða ákveðnar eftir að nýtt hættumat liggur fyrir í sumar.

„Farvegurinn er þröngur milli húsa við Nautaklauf og við Austurveg fer hann inn í lagnir. Það má því ekki mikið koma upp á til að þetta stíflist, eins og gerðist í desember,“ segir Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings.

Með skurðinum er gerð hjáleið fyrir vatn. Reistir hafa verið margir varnargarðar, til dæmis við Nautaklauf og sitt hvorum megin við Búðará.

Fyrir viku mældust hreyfingar í jarðlögunum þar sem skriðurnar féllu. Hugrún segir þetta ekki hafa haft teljandi áhrif. Verkið hafi aðeins stoppað í einn dag.

Hreinsun bæjarins gengur vel og eru allir munir Tækniminjasafnsins komnir í skjól. Aðgengi að húsum er einnig komið í lag.