Farþegum og bílstjóra strætisvagnsins sem ekið var á gangandi vegfarenda um hálf níu leytið í morgun við gatnamót Gnoðarvogs og Skeiðarvogs var boðin áfallahjálp strax í kjölfarið hjá Rauða krossi Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó er ekki vitað hvort allir farþegar hafi þegið boðið.

Ef einhver fékk ekki viðeigandi aðstoð hvetur Strætó fólk til þess að nýta sér áfallaaðstoð.

Ekki er ljóst hversu margir farþegar voru í bílnum þegar slysið átti sér stað.

Slysið varð um hálf níu leytið í morgun og var viðkomandi fluttur alvarlega slasaður á slysadeild, samkvæmt upplýsingum frá lögreglumönnum á vettvangi.

Mikill viðbúnaður var á svæðinu og nokkrir lögreglu-, sjúkra-, og slökkviliðsbílar. Þá mættu fulltrúar Rannsóknarnefndar samgönguslysa einnig til að skoða vettvang slyssins.

Í tilkynningu til nemenda frá Menntaskólanum við Sund segir að slysið tengist ekki einstaklingi í skólanum.

Ef einhverjum líði illa vegna slyssins eru starfsmenn skólans til staðar fyrir nemendur, bæði kennarar, námsráðgjafar og stjórnendur, að því er fram kemur í tilkynningunni.