Aprílmánuður var fyrsti mánuður ársins 2021 þar sem fleiri farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll en í fyrra. Kom þetta fram í frétt á vefsíðu Túrista. Fjöldi farþega í apríl nam 18.868, sem er sexföld aukning miðað við farþegafjölda árið 2020.

Árið 2020 var apríl fyrsti heili mánuðurinn þar sem áhrifa Covid-19 gætti á Íslandi eftir að sóttvarnaaðgerðir tóku gildi. Afleiðingar aðgerðanna fólu í sér gríðarlegan samdrátt í tíðni flugferða til og frá landinu.

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, bendir á, í samtali við Fréttablaðið, að þótt ferðir um Keflavíkurflugvöll hafi verið fleiri síðastliðinn apríl en í fyrra, er enn langt í að sama fjölda farþega sé náð og fóru um völlinn í apríl 2019. Þá fóru 474.519 farþegar um flugstöðina. Kristján segir að varlega verði að túlka þennan samanburð sem merki um bata í ferðamannaiðnaðinum.