Eftir rannsókn Strætó á kvörtun konu um að bílstjóri hefði kastað af sér þvagi fyrir utan strætisvagn á endastöð í Skerjafirði í gær kom í ljós að aðilinn sem um ræðir er ekki bílstjóri á vegum fyrirtækisins heldur farþegi hans.

Þetta staðfestir Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó.

Fréttablaðið greindi frá kvörtun Tönju Sifjar Hansen í dag sem var úti að ganga með börnum sínum tveimur um þrjú leytið í gær þegar þau komu að því er þau töldu bílstjóra Strætó í miðjum klíðum að létta af sér fyrir utan vagninn í Skerjafirði. Kynfæri hans hafi verið mjög sýnileg og að hún og börnin hennar hafi verið í sjokki vegna málsins.

Í samtali við Guðmund Heiðar fyrr í dag sagði hann málið til rannsóknar. Eftir ítarlega athugun kom svo í ljós að einstaklingurinn er ekki bílstjóri Strætó heldur farþegi hans.