Einstaklingurinn sem greindist með COVID-10 um borð í skemmtaferðaskipinu Viking Sky er líklega bólusettur og var ekki með einkenni þegar hann greindist með veiruna.

„Mér finnst líklegt að hann hafi verið bólusettur þar sem þú færð ekki að fara um borð í skip í dag án bólusetningarvottorðs,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við Fréttablaðið.

Viking Sky er hluti af flota Viking Ocean Cruises. Skipafélagið er með reglulega skimun fyrir og eftir að skip leggjast við bryggjur og er með sitt eigið smitrakningarteymi. Maðurinn greindist í reglulegri skimun um borð í skemmtiferðaskipinu og fengu heilbrigðisyfirvöld að vita af farþeganum fyrir nokkrum dögum. Var hann þá tekinn í sýnatöku hér á landi og verður því hluti af tölu smitaðra síðastliðinn sólarhring.

Hluti farþeganna hefur verið sendur í sóttkví en ekki er ljóst hve margir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn Almannavarna munu fara yfir stöðu mála á upplýsingafundi í dag klukkan 11:00.

Almannavarnir segja stöðuna varhugaverða vegna COVID-19 smita síðastliðna daga en nú er Delta afbrigðið svokallaða farið að láta á sér kræla hér á landi.