Farþegaþotu American Airlines var snúið við yfir Atlantshafinu eftir að farþegi neitaði að setja upp grímu. New York Times greinir frá þessu.

Flugvélin lagði af stað frá Miami síðasta miðvikudag og flaug aðeins í eina klukkustund og 48 mínútur samkvæmt vefsíðunni FlightAware. Ferðinni var upphaflega heitið til London.

Lögreglan beið eftir vélinni á flugvellinum og fylgdi konunni frá borði.

American Airlines hefur skráð 151 atvik sem tengjast óstýrilátum farþegum frá byrjun janúar á þessu ári en af þeim tengjast 92 mál grímuskyldu.