„Ég var að lenda á BSÍ fyrir um 40 sekúndum,“ segir Jórunn Edda Helga­dóttir í sam­tali við Frétta­blaðið. Jórunn er ein þeirra hundruð far­þega sem voru skilin eftir á Egils­staða­flug­velli í gær­kvöldi þegar flug­vélar Wizz Air lentu þar vegna slæms veðurs á Kefla­víkur­flug­velli.

Hún segir að þau hafi alls 50 farið saman í rútu til höfuð­borgar­svæðisins frá Egils­stöðum. Hún hafi verið eini Ís­lendingurinn í rútunni.

„Það var Pól­verji þarna sem náði að redda okkur rútu. Hún átti að fara frá Egils­stöðum klukkan 4.30 en seinkaði um þrjá og hálfan tíma, þannig við fórum ekki fyrr en klukkan átta,“ segir Jórunn.

Hún segir að þau hafi sjálf greitt fyrir ferðina en að þeim hafi borist póstur frá Wizz Air í morgun þar sem þeim hafi verið boðið að sækja um bætur.

„Hvað kemur út úr því veit ég ekki,“ segir Jórunn.

Hún segir að þrátt fyrir að um­ræða hafi verið á þann veg í dag að þau gætu ekki átt rétt á bótum vegna þess að breytingar urðu á á­ætlun vegna veðurs þá telji hún að það sé ekki lög­legt að láta fólk skrifa undir skjal þar sem það af­salar sér réttindum, en far­þegar vélanna fengu ekki að fara frá borði á Egils­stöðum nema að skrifa undir slíkt af­sal.

„Þó að það snúist um veðrið þá er ekkert lög­legt að skilja fólk bara eftir alls­laust, full­kom­lega strand í ein­hverjum bæ þar sem það getur ekki bjargað sér,“ segir Jórunn.

Hún segir að fólk hafi neyðst til að gista á flug­vellinum. Þau hafi nú alls verið á ferða­lagi í um 30 klukku­stundir og hún sé því orðin veru­lega þreytt.

„Það eru allir þreyttir, en það voru allir fegnir að komast af stað þegar rútan loks fór af stað. Síðan var það samt auð­vitað níu klukku­stunda ferða­lag. Maður er svo­lítið upp­gefinn,“ segir Jórunn að lokum.

Ekki rétt sé að krefja félögin um bætur við slíkar aðstæður

Ómar R. Valdimars­son, lög­maður sem heldur úti vefnum Flug­bætur.is, segir á­kvörðunina á­vallt vera í höndum flug­stjórans hvort lent sé eða ekki. Hann meti hvort hann treysti sér í við­komandi að­stæður og þegar flug­maðurinn hefur metið að­stæður svo að þær séu ó­við­ráðan­legar á þessum stað og þessum tíma þá sé dóma­fram­kvæmdin þannig fólk eigi yfir­leitt ekki rétt á bótum

„Við höfum hafnað þeim um­sóknum sem okkur hafa þegar borist því við teljum ekki for­svaran­legt að krefja flug­fé­lagið um bætur við þessi skil­yrði,“ segir Ómar.