Á Keflavíkurflugvelli þurftu farþegar þriggja véla frá Play air og Wizz air að bíða eftir því að komast frá borði vegna veðursins en ekki var hægt að festa landganga eða stigabíla vegna veðurs.
Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, var einnig þremur flugum frestað fram til dagsins í dag frá annars vega Wizz Air og hins vegar frá Icelandair, vegna veðurs.

Tvö útköll
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að nóttin hafi gengið vel og aðeins hafi verið farið í tvö útköll vegna foks. Lægð gekk yfir suðvestanvert landið í nótt og var gul viðvörun fram á nótt.
„Það voru tvö útköll sitthvoru megin við miðnætti. Fok í Grindavík og á Álftanesi. Annars bara kærkomin róleg nótt,“ segir Davíð.
Hann segir að sannarlega hjálpi það að lægðirnar komi um nótt. Það einfaldi þeirra vinnu því að færri séu á ferli.
„En ef eitthvað sem getur fokið, það fýkur, en þá eru minni líkur á einhverju veseni á fólki sem er að keyra á milli landshluta. Það er kannski lán í óláni að þær komi á nóttunni. “
En þær hafa komið hver af annarri núna. Hefur verið mikið að gera?
„Já, það er búið að vera nóg að gera á þessu ári. Það hefur byrjað af miklu krafti.“