Á Kefla­víkur­flug­velli þurftu far­þegar þriggja véla frá Play air og Wizz air að bíða eftir því að komast frá borði vegna veðursins en ekki var hægt að festa land­ganga eða stiga­bíla vegna veðurs.

Að sögn Guð­jóns Helga­sonar, upp­lýsinga­full­trúa Isavia, var einnig þremur flugum frestað fram til dagsins í dag frá annars vega Wizz Air og hins vegar frá Icelandair, vegna veðurs.

Björgunarsveit við störf á Álftanesi í nótt.
Mynd/Landsbjörg

Tvö útköll

Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, segir að nóttin hafi gengið vel og að­eins hafi verið farið í tvö út­köll vegna foks. Lægð gekk yfir suð­vestan­vert landið í nótt og var gul við­vörun fram á nótt.

„Það voru tvö út­köll sitt­hvoru megin við mið­nætti. Fok í Grinda­vík og á Álfta­nesi. Annars bara kær­komin ró­leg nótt,“ segir Davíð.

Hann segir að sannar­lega hjálpi það að lægðirnar komi um nótt. Það ein­faldi þeirra vinnu því að færri séu á ferli.

„En ef eitt­hvað sem getur fokið, það fýkur, en þá eru minni líkur á ein­hverju veseni á fólki sem er að keyra á milli lands­hluta. Það er kannski lán í ó­láni að þær komi á nóttunni. “

En þær hafa komið hver af annarri núna. Hefur verið mikið að gera?

„Já, það er búið að vera nóg að gera á þessu ári. Það hefur byrjað af miklu krafti.“