Nýjar reglur um að allir sem koma til Bretlands frá útlöndum verði sendir í 14 daga sóttkví verða kynntar síðar í dag.

Fylgst verður með að allir fari eftir reglum og haldi sig inni í tilskilinn tíma. Brjóti fólk gegn reglum um sóttkví má það búast við sekt upp á 180.000 íslenskra króna. Brandon Lewis, Norður-Írlandsmálaráðherra sagði frá þessu í samtali við Sky-News í morgun.

Þetta á við um alla þá sem koma til Bretlands frá útlöndum, í farþegaflugi, með ferjum eða lestum.

Fólk verður beðið um að fylla út eyðublað við komuna til landsins þar sem meðal annars verða gefnar upp upplýsingar hvar farþeginn hyggst dvelja næstu tvær vikurnar. Heilbrigðisstarfsfólk mun fylgjast með að fólki fari eftir settum reglum eftir komu til landsins.

Heilbrigðisstarfsfólk og vöruflutningabílstjórar verða undanþegin þessum takmörkunum. Þeir sem koma frá Írlandi verða sömuleiðis undanskildir þessu.

Lewis bætti því við að engin áform væru þessar mundir um að veita undanþágur fyrir þá sem ferðast til landa þar sem smittíðni er lág.

Flugbransinn ekki sáttur

Þessar vangaveltur um 14 daga sóttkví vöktu hörð viðbrögð í flugiðnaðinum. COVID-19 hefur, líkt og margoft hefur verið fjallað um, orðið til þess að eftirspurn eftir flugi hefur nánast þurrkast út og hefur þetta ástand leikið flugiðnaðinn grátt. Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, lýsti þessum áformum ríkisstjórnarinnar sem heimskulegum og óásættanlegum í vikunni.

Breska ríkis­stjórnin hefur kannað leiðir síðustu vikur til að hefja flugsamgöngur á ný til og frá landinu en vilja halda áhættunni á annarri bylgju faraldursins í algjöru lágmarki.