Ríkis­stjórnin til­kynnti í dag hvernig gjald­taka vegna sýna­töku mun fara fram á Kefla­víkur­flug­velli í sumar. Far­þegar sem kjósa að fara í sýna­töku og sleppa við sótt­kví munu frá 1. júlí næst­komandi greiða 15 þúsund króna gjald vegna sýna­tökunnar. Á­vallt stendur til boða að fara í 14 daga sótt­kví við komuna og sleppa þar með við gjald­tökuna.

Ó­keypis fyrstu tvær vikurnar

Sýna­taka á landa­mærum hefst 15. júní og verður gjald­frjáls fyrstu tvær vikurnar. Börn fædd árið 2005 eða síðar þurfa ekki að fara í sýna­töku. Til­laga heil­brigðis­ráð­herra um gjald­tökuna var sam­þykkt á fundi ríkis­stjórnarinnar í dag.

Hag­fræði­leg rök mældu með því að ferða­menn yrðu látnir greiða fyrir kostnað við sýna­töku. Nú liggur fyrir að al­þjóða­heil­brigðis­reglu­gerðin stendur ekki í vegi fyrir slíkri gjald­töku, enda sé sýna­takan val­kvæð og til­kynnt með hæfi­legum fyrir­vara.

Greiða beinan kostnað ríkisins

Gjaldið sem inn­heimt verður frá 1. júlí næst­komandi miðast við beinan kostnað ríkisins annan en stofn­kostnað og er miðað við fyrir­liggjandi kostnaðar­greiningu sem fram kemur í skýrslu verk­efnis­stjórnar um sýna­töku fyrir CO­VID-19 á landa­mærum sem kynnt var í ríkis­stjórn 26. maí síðast­liðinn.

Líkt og fram kom á frétta­manna­fundi ríkis­stjórnarinnar 12. maí síðast­liðinn var talið rétt að sýna­taka á landa­mærum yrði far­þegum að kostnaðar­lausu í upp­hafi meðan verið væri að ýta úr­ræðinu úr vör og leysa úr mögu­legum hnökrum.

Laga­heimild til gjald­töku vegna sýna­tökunnar er í lögum um sjúkra­tryggingar og mun heil­brigðis­ráð­herra gefa út reglu­gerð um gjald­tökuna og fleiri at­riði sem varða sýna­töku­verk­efnið á næstu dögum.