Farþegar um borð í skemmtiferðaskipinu Westerdam og aðstandendur þeirra hafa biðlað til Donald Trumps að koma sér til hjálpar, en fimm lönd hafa neitað skipinu að koma til hafnar. 2257 manns eru um borð í skipinu sem fær að leggjast að bryggju í Kambódíu á morgun og munu farþegar þá geta yfirgefið skipið.

Enginn hefur sýnt merki um smit

Skipinu var meinað að leggjast að bryggju og hleypa farþegum í land vegna ótta um að farþegar eða áhöfn gætu verið smitaðir af kórónaveirunni. Það hefur þótt undarlegt þar sem enginn farþeganna hefur sýnt einkenni veikinda.

Farþegar og aðstandendur þeirra eru margir orðnir örvæntingafullir og tók faðir Rebeccu Willet, sem starfar sem píanóleikari um borð í skipinu tók upp á því að biðja Donald Trump og Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, um að miðla málum.

Faðirinn, Scott Willett, segir í samtali við Vice News að dóttir hans þurfi nauðsynlega að komast í land þar sem hún sé veik og skipslæknirinn hafi sagt að hún verði að fara í ómskoðun og frekari rannsóknir.

„Allir eru fastir og það er engin leið að fá læknisaðstoð án þess að komast í land,“ segir Scott. Hann segir að mikill pirringur sé um borð í skipinu, en skemmtikraftar sem starfi um borð haldi áfram að vinna til þess að létta farþegum lífið.

Taíland hætti við

Skipið sigldi frá Hong Kong þann fyrsta september síðastliðinn og lagði upp í fjórtán daga siglingu um austur-Asíu. Farþegarnir hafa hins vegar ekki fengið mikið að skoða sig um, því að þeir hafa verið fastir um borð vegna ótta stjórnvalda vegna kórónaveirunnar.

Löndin sem hafa neitað að leyfa skipinu að leggjast að bryggju og leyfa farþegunum að fara í land eru Taíland, Japan, Filippseyjar, Guam og Taívan. Farþegum var sagt á mánudaginn að þeir fengju að fara í land í Taílandi, en heilbrigðisyfirvöld drógu það leyfi síðar til baka. Í staðinn útveguðu taílensk stjórnvöld skipinu eldsneyti og vistir fyrir áframhaldandi úthald.

Eins og áður segir mun skipið þó fá að koma til hafnar í Kambódíu á morgun, gangi allt að óskum.