Farþegar um borð í sex flugvélum Icelandair á Keflavíkurflugvelli bíða þess nú að geta komist á loft á meðan verið er að afísa vélarnar. Seinkanir hafa orðið á flugi Icelandair í morgun vegna veðurs; allt frá um korter seinkun upp í eina klukkustund og 45 mínútur.

Engum flugferðum hefur verið aflýst en seinkanirnar gætu haft áhrif á brottfarir í gegnum daginn.

„Það er möguleiki á frekari seinkunum í dag vegna veðursins,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Fréttablaðið.

Sex flugvélar bíða nú á flugbrautinni eftir að fá að leggja af stað.

„Vegna afísingar véla tekur þetta lengri tíma en venjulega. Sex vélar bíða brottfarar núna,“ segir Ásdís.

Í dag verður hvöss austlæg átt og stormur syðst á landinu seinnipartinn.

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Suðausturlandi og Miðhálendi.

Það verður snjókoma með köflum eða skafrenningur á sunnanverðu landinu, en úrkomulítið og hægari vindur fyrir norðan. Frost verður 1 til 12 stig.

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Suðausturlandi og Miðhálendi.
Fréttablaðið/Anton Brink