Farþegar á leið til eða í gegnum England þurfa frá og með 18. janúar næstkomandi að sýna neikvætt COVID-19 próf við komu. Þessar reglur taka gildi frá klukkan 04:00 aðfaranótt mánudags. Breska sendiráðið greinir frá þessu.

Þau sem ætla að ferðast til Bretlands þurfa að fara í sýnatöku að minnsta kosti þremur dögum fyrir flug. Þetta gildir einnig fyrir breska ríkisborgara en ekki fyrir börn yngri en 11. Vottorðið þarf að innihalda upplýsingar um:

  • Nafn
  • Aldur
  • Niðurstöður úr sýnatöku
  • Dagsetning á sýnatöku
  • Nafn og upplýsingar um þau sem framkvæmdu sýnatökuna
  • Nafnið á búnaði sem notaður var til að greina sýnið.

Þau sem fá jákvæðar niðurstöður mega ekki ferðast til Bretlands. Þá vekur athygli er ekkert er minnst á mótefnamælingar, hvort aðilar sem hafa fengið COVID-19 og eru nú með mótefni megi ferðast.

Birta Bjargardottir, upplýsingafulltrúi breska sendiráðsins, segir í samtali við Fréttablaðið að ekki eru tekin gild vottorð um mótefni. Aðilar þurfi að sýna fram á neikvætt COVID-19 próf.

Nánari upplýsingar má finna á vef bresku ríkisstjórnarinnar.

Strangar takmarkanir eru í gildi Bretlandi vegna útbreiðslu nýs afbrigðis af kórónaveirunni. Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu um áramótin en í desember voru flugsamgöngur milli Íslands og Bretlands tryggðar með undirritun loftferðasamnings.

Sendiherra Íslands í Bretlandinefndi í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að Íslendingar hefðu lent í vandræðum á flugvöllum í Bretlandi.

„Við höfum orðið vör við að Íslendingar lendi í vandræðum á leið í gegnum Bretland til annarra Evrópulanda. Ég hvet alla til að kynna sér vel allar opinberar upplýsingar áður en flug er bókað og áður en lagt er af stað. Þær geta breyst með skömmum fyrirvara,“ sagði sendiherrann.