Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, gerir ekki ráð fyrir breyttum áherslum á kjörtímabilinu sem er að renna í garð. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórninni hélt í sveitarstjórnarkosningum fyrr í mánuðinum, með þeirri breytingu þó að Sjálfstæðisflokkur missti einn bæjarfulltrúa yfir til Framsóknar.

„Það verður haldið áfram á sömu braut,“ sagði Rósa við Fréttablaðið. „Eitt mesta uppbyggingarskeið í Hafnarfirði er hafið og við þurfum að huga að mörgu til að taka á móti þeirri íbúafjölgun sem fram undan er á kjörtímabilinu. Við verðum að byggja nýja leikskóla og grunnskóla og fleira sem er komið í ferli. Verkefnin verða að undirbúa þessa íbúafjölgun sem er fram undan.“

Rósa segir að málefnasamningur nýs bæjarmeirihluta verði birtur formlega og í smáatriðum í næstu viku, en að þar sé engra mikilla breytinga að vænta. „Það verður enn meiri áhersla á skilvirkni í þjónustunni og velferðarmálin, og alltaf sama áherslan á ábyrga fjármálastjórnun, halda áfram að lækka skuldaviðmið og hlutföll eins og við höfum verið að gera á undanförnum málum.“

Vegna breytinganna innan meirihlutans verður Rósa aðeins bæjarstjóri til byrjun ársins 2025 en mun síðan víkja fyrir Valdimari Víðissyni, oddvita Framsóknar í Hafnarfirði. Valdimar mun þangað til vera formaður bæjarráðs og mun Rósa síðan taka við því embætti, sem hún gegndi áður í meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar frá 2014 til 2018.

Rósa segir fylgisaukningu Framsóknar annars litlu breyta um starfsemi meirihlutans. „Við þekkjumst vel og höfum unnið vel saman. Það verður engin breyting þar á. Við erum áfram að vinna í sömu átt og á því kjörtímabili sem er að ljúka. En auðvitað verða alltaf einhverjar áherslubreytingar á hverju kjörtímabili, það eru bara ný viðfangsefni og slíkt sem við þurfum að taka á hendur.“