Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Miðvikudagur 6. janúar 2021
07.00 GMT

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps og fyrrverandi forstjóri Matís vill að fyrrverandi vinnustaður sinn biðjist afsökunar fyrir að halda því fram að honum hafi verið vikið frá starfi vegna trúnaðarbrests.

Sveinn var í október í fyrra sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands vestra af ákæru um brot gegn lögum um slátrun og sláturafurðir meðan hann starfaði hjá Matís. Málið má rekja til bændamarkaðar í Skagafirði sem Sveinn stóð að þar sem meðal annars var selt kjöt þar sem lömbum hafði verið slátrað í í samræmi við verklag um örslátrun sem Matís hafði lagt til.

Matvælastofnun tilkynnti heimaslátrunina til lögreglu, sem í kjölfarið ákærði Svein sem í kjölfarið missti vinnuna sem forstjóri Matís. Var ástæðan sögð trúnaðarbrestur. En nú hefur héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að verkefnið hafi ekki verið lögbrot. Sveinn segist ánægður að fá sýknu og segir dóminn skýran.


„Matvælastofnun verður bara að axla ábyrgð í þessum efnum.“


„Nú er komið nóg. Hvað ætli það kosti skattgreiðendur að Matvælastofnun draga menn í gegnum dómskerfið? Það þarf að borga laun dómara og lögmanna. Auk þess hef ég orðið fyrir skaða í formi vinnutaps. Matvælastofnun verður bara að axla ábyrgð í þessum efnum,“ segir Sveinn í samtali við Fréttablaðið.

Bændur um allt land hafa lýst yfir miklum áhuga á örslátrun og segja það hvetja til nýsköpunar og auka val neytenda á markaði.


„Þess í stað er farið í manninn en ekki boltann og hann er sparkaður niður eins fast og nauðsynlegt er.“


Íhugar að höfða skaðabótamál

Aðspurður hvort hann ætli sér að höfða skaðabótamál segist Sveinn hafa íhugað það. Hann vilji þó fyrst og fremst fá afsökunarbeiðni.

Já, ég hef velt því fyrir mér og margir bent mér á að ég ætti kannski að gera það. Ég er þó ekki kominn þangað en þætti eðlilegt að minn fyrrverandi vinnustaður biðjist afsökunar fyrir að hafa haldið því fram að um væri að ræða trúnaðarbrest. Þetta verkefni var gert út frá markmiðum Matís og gert faglega. Nú er komin niðurstaða að þetta var ekki lögbrot en það lá fyrir í mínum huga allan tímann,“ segir Sveinn.

Hann segir að hingað til hafi MAST ekki sýnt örsláturhúsum mikinn áhuga og að málsmeðferð þeirra miði frekar að því að drepa umræðuna í stað þess að auka nýsköpun og efla frelsi neytenda til vals á markaði.

„Þess í stað er farið í manninn en ekki boltann og hann er sparkaður niður eins fast og nauðsynlegt er,“ segir Sveinn.

Matvælastofnun segir að ef heimila á markaðssetningu á afurðum af heimaslátruðum dýrum án heilbrigðisskoðunar í sláturhúsi sem ekki hefur starfsleyfi, þá þurfi lagabreytingu til.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Computer says no“

Sveinn segir nauðsynlegt að aðlaga regluverkið. „Þetta er svona computer says no ástand. Menn kæra bara og vaða í manninn í stað þess að taka umræðu.“ Segir hann viðbrögðin byggjast á rangri túlkun laganna.

Upplýsingafulltrúi Matvælastofnunar segir matvælaframleiðendur þurfa að uppfylla þá löggjöf sem gildir um starfsemi þeirra á hverjum tíma.

Markaðssetning á sláturafurðum er óheimil nema afurðirnar komi af dýrum sem slátrað hefur verið í sláturhúsi sem hefur starfsleyfi og farið í gegnum heilbrigðisskoðun af hálfu opinbers dýralæknis. Ef heimila á markaðssetningu á afurðum af heimaslátruðum dýrum án heilbrigðisskoðunar í sláturhúsi sem ekki hefur starfsleyfi, þá þarf lagabreytingu til,“ segir í svari MAST við fyrirspurn Fréttablaðsins.

En bændur eru ekki á móti heilbrigðisskoðun og vilja að sjálfsögðu að sláturhús starfi með viðeigandi leyfi. En regluverkið flækir hlutina óþarflega mikið og stundum þurfa bændur, sem hafa áhuga á heimavinnslu, að senda lömbin sín gríðarlegar vegalengdir í sláturhús, eins og Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekki í Breiðdal, sem þarf að senda sláturlömbin sín einhverja 300 til 400 kílómetra og er hluti af leiðinni eftir lélegum malarvegi

Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekki á Austurlandi, sem Fréttablaðið ræddi við í fyrra.
Mynd/Gilsárstekkur

Varðandi örslátrun segir MAST möguleikana takmarkaða þar sem Ísland hafi skuldbindingar samkvæmt matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Vísa þau í reglugerð um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli um að óheimilt sé að dreifa eða selja kjöt úr heimaslátrun til annarra.

Hver eru næstu skref stofnunarinnar í þessu máli? Mun MAST greiða Sveini skaðabætur?

„Þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um fyrirkomulag við slátrun á þeim afurðum sem seldar voru á bændamarkaði haustið 2018, hvernig staðið var að vinnslunni og hver hafði forgöngu um slátrunina, vinnsluna sem og dreifinguna og markaðssetninguna, þá óskaði Matvælastofnun eftir að lögreglan tæki málið til frekari meðferðar og tæki ákvörðun um hvernig skyldi ljúka því. Með beiðni Matvælastofnunar til lögreglunnar um rannsókn málsins var afskiptum stofnunarinnar af málinu lokið. Frekari rannsókn og ákvörðun um útgáfu kæru og efni hennar var í höndum lögreglunnar,“ segir í svari MAST.


„Það er ótrúlega gaman að upplifa sem sveitarstjóri hvað það er mikill kraftur í bændum.“


Gefum bændum meira frelsi

Hrönn Jörundsdóttir, sem var ráðinn forstjóri MAST í júlí í fyrra. Hún hefur sagt mögulegt að örva nýsköpun með örsláturhúsum og tekur undir með að regluverkið sé flókið og ruglingsverk.

Sveinn segir að Hrönn verði að sýna fram á að hún ætli að stýra stofnuninni en láta hlutina ekki bara danka áfram

Að því sögðu vil ég taka skýrt fram að ég er mjög ánægður í því sem ég er að gera í dag. Það er ótrúlega gaman að upplifa sem sveitarstjóri hvað það er mikill kraftur í bændum og ég er svo innilega sannfærður um það að ef bændur fengu meira frelsi að sjá um sína vöru og markaðssetningu sjálfir þá væri staða bænda og ekki síður val neytenda miklu betra en það er í dag.

„Við treystum smiðum til að koma og smíða hjá okkur án þess að það er eftirlitsstofnun að fylgjast með þeim hamra naglana. Hvers vegna treystum við ekki bændum til þess að slátra, að sjálfsögðu innan eðlilegs regluverks sem tryggir dýlaverðferð og hagsmuni neytenda?“

Ljóst er að mikill áhugi sé fyrir örslátrun og heimavinnslu meðal bænda og margt óþarflega flókið við regluverkið. Þar sem flestir eru sammála um að þörf sé á breytingum, þ.e. lagabreytingum, er boltinn hjá Alþingi í þessu máli.

Sveinn Margeirsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps.
Athugasemdir