Á­kæru­vald fer fram á tólf ára há­marks­fangelsis­dóm yfir fjórum mönnum af fimm, þeim Ólafi Ágústi Hraun­dal, Guð­laugi Agnari Guð­munds­syni, Hall­dóri Margeiri Ólafs­syni og Guð­jóni Sigurðs­syni í saltdreifaramálinu svokallaða, sem er eitt stærsta fíkni­efna­mál sinnar tegundar hér á landi. Þetta kom fram við aðal­með­ferð málsins í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun. RÚV greinir frá.

Þá er farið fram á tveggja ára dóm yfir Geir Elí Bjarna­syni.

Á­kæru­valdið leggur til að Ólafi Ágústi verði gert að greiða þrjár milljónir króna í sakar­kostnað, Guð­laugi 217 þúsund krónur, Hall­dóri Margeiri og Guð­jóni hvorum um sig 279 þúsund krónur og Geir Elí fimm­tíu og níu þúsund krónur.

Götu­virði 1,7 milljarður króna

Guð­laugi Arnari, Hall­dóri Margeiri og Guð­jóni er gefið að sök að hafa árið 2020 smyglað hingað til lands fimm­tíu og þremur lítrum af am­feta­mín­basa, sem falinn var inn í salt­dreifara sem fluttur var inn til Þor­láks­hafnar. Þá eru þeir grunaðir um að hafa fram­leitt allt að 117,5 kíló af am­feta­míni í sölu- og dreifingar­skyni. Lög­reglan metur götu­virði efnanna um 1,7 milljarður króna.

Guð­jón Arnar, Hall­dór Margeir, Geir Elí og Ólafur Ágúst eru sömu­leiðis á­kærðir fyrir að hafa staðið saman að kanna­bis­ræktun í úti­húsi við heimili Guð­jóns á Hellu. Lög­reglan lagði hald á rúm­lega sex kíló af kanna­bis­plöntum, rúm 16 kíló af marijúana og 131 kanna­bis­plöntur í að­gerð lög­reglu í maí á þessu ári.

Ólafur Ágúst er sakaður um að hafa haft í vörslu sinni tals­vert magn af fíkni­efnum á þremur stöðum.

Eitt stærsta fíkni­efna­mál í ís­lenskri réttar­sögu

Málið er eitt stærsta fíkni­efna­mál í ís­lenskri réttar­sögu og gríðar­lega viða­mikið, en heildar­gögn málsins telja að minnsta kosti yfir tvö þúsund blað­síður. Þá hefur lög­regla fylgst með hinum á­kærðu í langan tíma, en salt­dreifarinn sjálfur kom til landsins í byrjun febrúar 2020. Lög­regla fann salt­dreifarann í úti­húsi að Hjalla­nesi á Hellu í nóvember 2020, en lagði þó ekki hald á hann við hús­leit fyrr en undir lok maí­mánaðar 2022 sökum rann­sóknar­hags­muna.