„Eins og staðan er núna hefur dregið úr þessu, en þetta gæti tekið sig upp aftur," segir Sig­ríður Magnea Óskars­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur, hjá Veður­stofu Íslands aðspurð um stöðuna á skjálftahrinunni sem fylgt hefur stóra skjálftanum sem varð á Reykja­nesskaga í gær.

Frá miðnætti hafa mælst um 800 skjálftar á svæðinu. Í morgun mældust tveir skjálftar í Fagradalsfjalli annar klukkan 06:05 að stærð 3,7 og sá síðari klukkan 06:23 að stærð 3,8. Klukkan rúmlega tíu í morgun varð skjálfti 3,1 að stærð, 4,5 kílómetra austur af Keili sem íbúar höfuðborgarsvæðisins fundu fyrir.

Sigríður segir að síðan að skjálftinn yfir Keili mældist hafi dregið aðeins úr virkninni.

„Flestir skjálftarnir sem hafa orðið síðan þá eru á bilinu 1 til 2 að stærð. Það er kannski fullsnemmt að segja að það sé farið að draga verulega úr þessu en það er ekki hægt að útiloka að það komi fleiri stórir skjálftar. Íbúar á suðvest­ur­horni lands­ins mega bú­ast við því að jörð skjálfi eitt­hvað áfram, í nokkra daga eða jafn­vel viku," segir Sigríður.

Sigríður segir ekki nein merki um gosóróa á skjálftasvæðinu og telur ólíklegt að það fari að gjósa á næstunni.