Ríkisstjórn Kanada tilkynnti í dag að þau hygðust farga rúmlega þrettán milljón skömmtum af bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19. Ríkisstjórnin segist hafa boðið bólusetningar innlendis og erlendis en enginn hafi tekið því. The Guardian greinir frá.
Árið 2020 skrifaði ríkisstjórn Kanada undir samning við AstraZeneca um að þau skyldu fá tuttugu milljón skammta af bóluefninu. Rétt rúmar tvær milljónir þáðu bóluefnið frá AstraZeneca, flestir á tímabilinu mars árið 2021 til júní sama árs.
Vegna gruns um að bóluefni AstraZeneca væri valdur blóðtappa færðist bóluefnanotkun í Kanada að mestu leyti frá AstraZeneca og til Pfizer og Moderna. Því er þessi fjöldi skammta afgangs.
Þrátt fyrir mikla aukningu á Covid-19 smitum víða um heim vildi enginn taka við bóluefninu. Ríkisstjórn Kanada bauð öðrum ríkisstjórnum að taka við skömmtunum en þær höfnuðu því allar.
Af þeim 38 milljónum sem búa í Kanada eru um 85 prósent fullbólusettir. Um allan heim eru 61 prósent fullbólusettir en í fátækustu ríkjum heims er sú tala einungis 16 prósent.