Skemmtiferðaskipið Viking Sky hefur nú lagst við bryggju í Molde í Noregi. Skipið varð vélarvana úti fyrir stöndum Noregs eftir hádegið í gær, í aftaka veðri. Með naumindum tókst að koma í veg fyrir að það strandaði. Um 1.400 manns voru í skipinu en hluti þeirra var ferjaður með þyrlum til lands í gær og í dag.

NRK greinir frá því að skipið hafi lagst að bryggju í Molde fyrir tæpum klukkutíma. „Okkur er borgið,“ hrópuðu farþegar að þeim sem biðu þegar skipið lagðist við höfnina. Fagnaðarlæti brutust út þegar skipið nam staðar.

Fulltrúar Siglingastofnunar Noregs eru nú um borð í skipinu en rannsókn mun nú fara fram á því hvað gerðist. BT segir frá því að skipstjóri hafi fengið þær ráðleggingar að fara yfir Hustadvika í storminum í gær, en það var þar sem skipið lenti í vandræðum. Enginn setti fram þá kröfu að skipið myndi fresta för á laugardag.

NRK segir að tæplega 500 manns hafi verið fluttir frá borði í þyrlum í gærkvöldi og í nótt. 20 farþegar meiddust í volkinu, en farþegarnir þurftu að sætta sig við mikinn velting á meðan öllu þessu stóð.

Það var seint í gærkvöldi sem skipverjum tókst að koma þremur af vélum skipsins í gang. Síðan þá hefur það siglt löturhægt til hafnar. 

Veðuraðstæður á vettvangi torvelduðu björgunaraðgerðir verulega í gær og í nótt. Fyrir vikið var ekki hægt að nota björgunarbáta til að flytja fólk í land.