Boeing 737 Max farþegaþota Ethiopian Airlines hrapaði í morgun stuttu fyrir klukkan sex á íslenskum tíma. Talið er að 157 hafi verið um borð í vélinni, þar af 149 farþegar.

Talsmaður flugfélagsins hefur greint frá því að vélin hrapaði stuttu fyrir klukkan níu á staðartíma, skömmu eftir flugtak í eþíópísku höfuðborginni Addis Ababa. Í yfirlýsingu flugfélagsins segir að þegar hafi verið hafist handa við björgunaraðgerðir. Ekkert hefur verið gefið út um tölu látinna.

Þá hefur Abiy Ahmemd, forsætisráðherra Eþíópíu, lýst samúðarkveðjum sínum á Twitter síðu sinni. „Dýpstu samúðarkveðjur til þeirra fjölskyldna sem glatað hafa ástvinum sínum,“ sagði forsætisráðherrann á Twitter.

Í október á síðasta ári hrapaði samskonar flugvél, Boeing 737 Max, í ætlunarflugi Lion Air yfir Jakarta á Indónesíu. Vélin hrapaði tólf mínútum eftir flugtak. Þar létust allir farþegar um borð, 189 manns í heildina.