Með­limir Við­móts, sam­taka um mann­úð­lega vímu­efna­stefnu á Ís­landi, héldu setuverkfall heimilislausra karlmanna í neyðar­skýlinu á Granda­garði í morgun. Um var að ræða önnur mótmæli hópsins.

Neyðarskýli borgarinnar eru opin frá klukkan 17 á daginn þar til klukkan tíu næsta morgun. Mennirnir krefjast þess að skýlin séu opin á daginn eða að opnað verði úrræði með dagopnun. Þá vilja þeir einnig undanþáguopnun þegar veður er sérstaklega vont.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, var viðstödd mótmælin og segir í samtali við Fréttablaðið að það hafi verið til að sýna stuðning.

„Það er fáránlegt að Reykjavíkurborg sé ekki búin að gera neitt í þessu,“ segir Sanna sem bendir á að það hafi verið gríðarlega kalt úti, í þær tuttugu mínútur sem hún var viðstödd mótmælin. „Ég get ekki ímyndað mér að vera þarna úti í lengri tíma,“

Sanna ræddi við viðstadda.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hún segist ætla að reyna að ná fram aðgerðum í málaflokknum á borgarstjórnarfundi sem verður haldinn síðar í dag. Sanna sagði að Sósíalistaflokkurinn myndi vilja annaðhvort að neyðarskýlin yrðu opin allan sólarhringinn, eða að dagsetur yrði opnað á daginn, sem væri nálægt skýlunum.

Þá benti hún á að Sósíalistar hefðu áður lagt til að skýlin yrðu opinn allan sólarhringinn, en sú tillaga hafi verið send í starfshóp og niðurstaða hans sé ekki komin.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, sagði í síðustu viku að ekki stæði til að lengja opnunartíma neyðarskýlanna, líkt og mennirnir krefjast.

Hluti þeirra sem tók þátt í mótmælunum.
Fréttablaðið/Anton Brink