Íbúar í Laugardal eru orðnir langþreyttir á umferð um göngustíg við bílastæði World Class í hverfinu og segja hana slysagildru.

Eftir langa bið fékk Sóley Kaldal, íbúi í Laugardal, loks áheyrn fulltrúa Reykjavíkurborgar í fyrradag. Málið hefur verið á borði borgarinnar frá því í byrjun árs 2019.

Að sögn Sóleyjar var niðurstaða fundarins sú að að ekki yrði settur peningur í úrbætur þarna í ár. Borgin forgangsraði stöðum í borginni sem þarfnist breytinga og að þessi staður hafi ekki náð á topplistann.

Sóley kom með ýmsar tillögur að ódýrari úrbótum sem borgin gat ekki séð sér fært að verða við. Hún segir fulltrúa borgarinnar þó hafa verið sammála um að úrbætur væru nauðsynlegar og að þeir hafi samþykkt að setja niður steypuklumpa á tveimur stöðum.

Göngustígurinn og innkeyrslan inn á bílastæði við World Class.
Mynd/Aðend

Ákall íbúa

„Í rauninni mun umferðin til að byrja með vera jafn mikil þar til fólk fattar að það komist ekki lengur þarna,“ segir Sóley sem er þakklát fyrir niðurstöðuna þó hún hefði kosið sá frekari úrbætur strax.

„Það er ákall íbúa í Laugardalnum að fjarlægja þessi stæði. Þarna er verið að fórna hagsmunum og öryggis allra þeirra sem nota göngustíginn,“ segir hún og bendir á að gríðarlegur fjöldi barna og gamalmenna fari um göngustíginn á hverjum degi. Málið var tekið upp á fundi íbúaráðs í Laugardal á mánudaginn. Daginn eftir fékk Sóley fund með fulltrúum borgarinnar.

„Þetta er tenging milli aðalbyggingar Laugarnesskóla og aukabyggingar skólans, sem er nú KSÍ, og íþróttamannvirkjanna. Þannig að það er mikil dagleg umferð barna í hverfinu, að fórna þeirra öryggi fyrir örfá lúxusstæði þeirra sem eru að fara hreyfa sig hvort sem er. Þetta er fáránlegt hagsmunamat,“ segir Sóley og bætir við að fulltrúar borgarinnar hafi tekið undir það. Bílastæðin væru barns síns tíma og það væri á borðinu að útfæra svæðið á annan hátt.

Langtímaáætlun borgarinnar sé að fjarlægja bílastæðin sem standa næst líkamsræktarstöðinni.