149 innan­lands­smit greindust í dag, sem er svipað og síðustu daga. Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir far­aldurinn ekki vera í vexti en mjakast hægt niður á við.

„Hann er ekki í vexti en ef maður lítur yfir lengra tíma­bil þá er hann kannski hægt niður­á­við. Hann er ekki að fara hratt niður en við erum alla­vega ekki að sjá vöxt og vonandi höldum við á­fram að mjaka okkur niður á við. Það eru ekki vonir til þess að þetta muni ganga hratt niður af því þetta er orðið það út­breitt í sam­fé­laginu að ég held að þetta muni ekki verða eins og með fyrri bylgjur.“

Að sögn Þór­ólfs eru ekki for­sendur fyrir því að herða tak­markanir eins og staðan er nú.

„Nei, mér finnst það nú ekki og staðan er nokkuð stabíl hvað Co­vid varðar á spítalanum. Það er náttúr­lega fólk að leggjast inn en það er líka fólk að út­skrifast og það er ekki meira álag á gjör­gæsluna. Þannig að þetta er svona allt nokkuð stabílt en auð­vitað mættum við fara að komast neðar í kúrfunni, það er alveg ljóst.“

Yfir þrjá­tíu stökk­breytingar í nýju af­brigði

Nýtt af­brigði kóróna­veirunnar hefur greinst í Suður-Afríku og hafa margir á­hyggjur af því að það geti reynst enn hættu­legra en fyrri af­brigði. Af­brigðið nefnist B.1.1.529, eru yfir þrjá­tíu stökk­breytingar í brodd­próteini þess.

Að sögn Þór­ólfs eru ekki öll kurl komin til grafar hvað nýja af­brigðið varðar. Hann segir það ekki liggja fyrir hversu smitandi af­brigðið sé, hvort það komist undan bólu­efnunum eða hvort það valdi al­var­legri veikindum.

„Það sem menn hafa verið að sjá eru þessar miklu stökk­breytingar á þessu svo­kallaða Spi­ke eða S-próteini sem er aðal­próteinið sem veiran notar til þess að smita og bólu­efnin eru gegn því. Vegna þess að það eru svo margar breytingar sem sjást þar þá hafa menn á­kveðnar á­hyggjur af því að þetta af­brigði muni hegða sér ein­hvern veginn öðru­vísi en við eigum eftir að fá betri upp­lýsingar um það, þær liggja ekki fyrir núna,“ segir hann.

Sum lönd hafa þegar farið þá leið að herða tak­markanir á landa­mærum vegna ótta við af­brigðið. Bret­land, Japan og Holland hafa til að mynda lokað tíma­bundið fyrir ferða­lög frá sex Afríku­löndum, þar með talið Suður-Afríku. Þór­ólfur segir ó­ljóst hvort grípa þurfi til harðari að­gerða á landa­mærum Ís­lands.

„Við erum með á­kveðnar tak­markanir í gangi en það er ekki fyrir­hugað af minni hálfu að fara út í ein­hverjar hertari að­gerðir á landa­mærunum. En við þurfum bara að sjá hvernig þetta þróast og hvernig þetta verður, hvort við þurfum að grípa til ein­hverra slíkra að­gerða eins og við vorum með áður, það er ó­ljóst á þessari stundu.“

Að­gerðirnar gætu hjálpað að hefta inflúensuna

Fyrsta inflúensu­smit vetrarins var stað­fest í gær hjá ferða­manni. Þór­ólfur kveðst ekki vita af fleiri smitum en segir Ís­lendinga nokkuð vel í stakk búna til að takast á við inflúensuna.

„Það er nú oft þannig á haustin og veturna að það greinast ferða­menn með ein­staka smit en svo tekur hún ekki á rás fyrr en upp úr ára­mótunum. Hvort það verði sama uppi á teningnum núna það vitum við svo sem ekki en við vitum það að inflúensan kemur og hún hefur alltaf gert það nema í fyrra. Við þurfum bara að sjá til. Við höfum verið að bólu­setja mjög mikið gegn inflúensunni og ég vona bara að allir nýti sér það sem geta,“ segir hann.

Þannig inflúensan er ekki eitt­hvað sem við þurfum að hafa á­hyggjur af?

„Við vissum og vitum að inflúensan kemur og vitum aldrei hversu erfið og þung hún verður, hvort hún valdi al­var­legum veikindum. Við vitum ekki ná­kvæm­lega hvernig bólu­efnin munu virka, það er alltaf svo­lítið happa­drætti. Við eigum líka nóg af lyfjum gegn inflúensunni og þessar að­gerðir sem við erum með í gangi ættu líka að hjálpa okkur að tak­marka út­breiðslu inflúensunnar þannig ég vona að það muni skila sér.“

Á­kvörðun um bólu­setningar barna liggi fyrir á næstunni

Þór­ólfur segir að vera til skoðunar að bólu­setja börn á aldrinum 5 til 11 ára og mögu­lega verði tekin á­kvörðun um það í lok næstu viku.

„Það verður nú ekki fyrr en kannski í lok næstu viku myndi ég halda. Við þurfum að skoða þetta vel áður en við förum af stað.“

Í sam­tali við Mbl.is segir Þór­ólfur það enn vera til skoðunar hvort bjóða eigi öllum börnum bólu­efnið eða einungis á­kveðnum hópi.

„Það er eins og með aðra hópa, á að bjóða börnum sem eru með á­kveðna undir­liggjandi sjúk­dóma eða á að bjóða öllum börnum bólu­efnið. Það er bara hluti af á­kvörðuninni og ferlinu,“ sagði Þór­ólfur í sam­tali við mbl.is.