Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra lagði í kvöld fram á Al­þingi frum­varp til fjár­auka­laga. Gert er ráð fyrir 55,2 milljarða króna aukningu vegna CO­VID-út­gjalda og 9,9 milljörðum króna vegna annarra út­gjalda.

Um er að ræða fimmta frum­varpið til fjár­auka­laga á árinu, en fjár­auka­lög fjalla um ó­fyrir­séðan kostnað sem fallið hefur til á yfir­standandi ári en ekki er gert ráð fyrir í fjár­lögum ársins. Yfir­leitt er að­eins eitt slíkt frum­varp lagt fram á ári hverju.

Í frum­varpinu kemur fram að rekja megi um það bil 156 milljarða króna, eða 93%, af heildar­aukningu fjár­heimilda á árinu 2020, til beinna eða af­leiddra á­hrifa af heims­far­aldrinum. Þá kemur fram að ýmis úr­ræði hafi verið of­metin í kostnaði og reynst minna nýtt en búist var við.

Út­gjöldum vegna á­hrifa heims­far­aldursins má skipta upp eftir því hvort um er að ræða mót­vægis­ráð­stafanir eða aukinn kostnað. Því til við­bótar er gert ráð fyrir auknum greiðslu­heimildum vegna rekstrar­tekju­taps stofnana. Mót­vægis­ráð­stafanir nema alls um 28,7 milljörðum króna og vega þar þyngst 23,3 milljarða króna fram­lög vegna tekju­falls­styrkja.

Til aukins kostnaðar vegna heims­far­aldursins teljast 40,1 milljarður króna og er lang­stærsti hluti þess vegna aukins at­vinnu­leysis, eða 29,5 milljarðar. Þá er ó­fyrir­séður kostnaður til heil­brigðis­mála um 6,2 milljarðar.

Í frum­varpinu kemur fram að heildar­tekjur ársins 2020 séu á­ætlaðar 792,4 milljarðar króna, eða sem nemur 27,8% af vergri lands­fram­leiðslu. Er það ríf­lega 116 milljarða króna lækkun frá gildandi fjár­lögum. Að sama skapi er gert ráð fyrir að heildar­út­gjöld ársins 2020 séu 1.063 milljarðar króna, eða um 32,7% af vergri lands­fram­leiðslu sem er um 144 milljörðum krónum hærra en á­ætlun fjár­laga.

Sem fyrr segir má hækkun út­gjalda að stærstu leyti rekja til mót­vægis­að­gerða stjórn­valda auk hærri út­gjalda vegna at­vinnu­leysis.