Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og ráð­herra jafn­réttis­mála, fagnar að­haldi og gagn­rýni gras­rótar­sam­takanna Femínísk fjár­mál á að­gerðir stjórn­valda í kjöl­far CO­VID-19. Sam­tökin kynntu í vikunni greiningu sína að­gerðum stjórn­valda og voru helstu niður­stöður þær að að­gerðir stjórn­valda hafi verið of karl­lægar og of al­mennar.

„Mér finnst í fyrsta lagi gaman að þetta sé fé­lag til til því það er mikil­vægt að fá þennan kynja­vinkil á að­gerðir stjórn­valda og mér finnst skemmti­legt að fá þetta að­hald, ef svo má segja, því ef þessi far­aldur hefur kennt okkur eitt­hvað þá er það mikil­vægi kvenna­stétta fyrir sam­fé­lagið,“ segir Katrín í sam­tali við Frétta­blaðið.

En heldurðu að að­gerðirnar hafi verið of karl­lægar?

„Það er alveg stað­reynd. Við bentum á það sjálf við þær fjár­festingar sem við vorum að ráðast í, sem voru að ein­hverju leyti hefð­bundnar fjár­festingar, sam­göngu­fram­kvæmdir og annað, að þær eru metnar frekar karl­lægar. Síðan erum við með fjár­festingar í öðru eins og rann­sóknum, ný­sköpun og skapandi greinum og það er kannski á­hyggju­efni að við sjáum á­kveðna kynja­slag­síðu til að mynda í styrkjum til ný­sköpunar, þar sem hallar á konur. Því það er eitt­hvað sem byggir ekki á langri sögu og það skiptir máli að við greinum það og skoðum og það höfum við gert hjá Vísinda- og tækni­ráði,“ segir Katrín.

Hún segist mjög hugsi yfir þessu því þetta skipti veru­lega miklu máli í öllum þeim tækni­fram­förum sem við eigum fram undan og segir að það sé gríðar­lega mikil­vægt að kynja­gler­augun séu uppi alveg frá upp­hafi.

Standa vörð um velferðarkerfið

Katrín segir að í umræðu um jafnréttismál megi ekki gleyma risa­stórri og pólitískri að­gerð ríkis­stjórnarinnar um að ráðast ekki í niður­skurð til að bregðast við halla ríkis­sjóðs heldur að standa vörð um vel­ferðar­kerfið og opin­bera þjónustu.

„Þar sem störf kvenna eru auð­vitað í gífur­legum meiri­hluta,“ segir Katrín og bætir við að það hafi heldur ekki verið sjálf­sögð á­kvörðun í slíkri kreppu að standa við það að lengja fæðingar­or­lofið í tólf mánuði, eins og var gert um ára­mótin.

„Það eru ef­laust ein­hverjir sem hefðu hætt við það við slíkar að­stæður en við höfum vilja við­halda bæði á­kveðinni fé­lags­legri vídd og kynja­vídd í okkar að­gerðum sem við á­kveðum að standa við það,“ segir Katrín.

Spurð um að­halds­kröfu á ríkis­rekstur á næsta eða þar­næsta ári sem að bæði Femínísk fjár­mál og önnur sam­tök eins og ASÍ hafa talað oft um og sagt erfiða í þessari stöðu segir Katrín að sú ríkis­stjórn sem nú situr hafi markað þá stefnu að skera ekki niður í vel­ferðar­kerfinu og að litið verði til staf­rænna lausna þar sem það er hægt. Hún bendir þó á í sömu um­ræðu að hér eiga eftir að fara fram kosningar í haust þannig það sé alls ekki ljóst hver staðan verður né hvernig verður brugðist við henni.

„Það er eðli­legt að fólk velti þessu fyrir sér því af því að það er tölu­verð ó­vissa fram undan um efna­hags­mál, hvernig hag­vöxtur verður og hversu miklu að­haldi þarf að beita,“ segir Katrín en segir að þar séu færar fleiri en ein leið og bendir á breytingar á skatt­kerfi og að­haldi í ríkis­fjár­málum.

Katrín segir að það megi ekki gleyma því að hér á að kjósa í haust og því ekki ljóst hver tekur ákvarðanir um næstu skref.
Fréttablaðið/Anton Brink

Unnið að kynjaðri fjárlagagerð í tíu ár

Spurð hvort hún telji að að­ferð sam­takanna og fleiri við að kyn­greina að­gerðir og stefnur í stjórn­málum séu komnar til að vera segir Katrín að þau hafi undan­farin ára­tug unnið að kynjaðri fjár­laga­gerð og að nú sé vinna í gangi sem eigi að skoða verð­mæta­mat á störfum karla og kvenna.

„Það er hluti af því sem við eigum alltaf við í kynja­mis­rétti er þessi kyn­skipti vinnu­markaður sem er hér á Ís­landi og hann er jafn­vel ívið kynja­skiptari hér en sums staðar annars staðar á löndunum sem við berum okkur saman við. Þá birtist svo sterkt þetta ó­líka verð­mæta­mat starfa,“ segir Katrín.

Það er gríðar­lega mikil­vægt að hafa þessi sjónar­mið undir, í allri okkar á­kvarðana­töku

Aðgerðir sem áttu að auka umsvif

Hún segir að hennar mati eigi kynja­sjónar­mið alltaf við, í öllum á­kvörðunum, og nefnir sem dæmi á­kvörðun stjórn­valda að halda leik- og grunn­skólum opnum í CO­VID-19.

„Það er gríðar­lega mikil­vægt fyrir sam­fé­lagið og ekki síst konur því ef skólum hefði verið lokað í lengri tíma hefði það fremur verið konur sem hefðu verið heima,“ segir Katrín og það megi sjá er­lendis frá þar sem aðrar á­kvarðanir voru teknar um lokun skóla.

„Það er gríðar­lega mikil­vægt að hafa þessi sjónar­mið undir, í allri okkar á­kvarðana­töku og þau hafa verið það, þó að það sé alveg hár­rétt gagn­rýni að þessar verk­legu fram­kvæmdir sem er ætlað að efla opin­bera fjár­festingu þær nýtast körlum fremur í at­vinnu­sköpun þó að konum fari fjölgandi í hópi verk­fræðinga og arki­tekta og annarra sem koma að slíkum fram­kvæmdum,“ segir Katrín.

Spurð um full­yrðingar þess efnis að í að­gerðum stjórn­valdi hafi stundum verið að grípa fólk sem ekki var að detta, eins og með ferða­gjöf eða barna­bóta­auka, segir Katrín að það skipti máli hvernig er litið á að­gerðina. Þessar að­gerðir voru hugsaðar til að auka um­svif en svo hafi verið aðrar að­gerðir sem áttu að auka jöfnuð.

„Við höfum í senn reynt að vera með að­gerðir sem virkuðu fyrir við­kvæma hópa en líka verið með að­gerðir sem að áttu að auka um­svif í sam­fé­laginu,“ segir Katrín og bætir við:

„Það hafa verið teknar mark­vissar á­kvarðanir um að skera ekki niður, um að halda ó­breyttu plani um lengingu fæðingar­or­lofs. Ég er ekkert viss um að allar ríkis­stjórnir hefðu gert það og mér finnst það endur­spegla á­kveðna fé­lags­lega- og kynja­vídd í þessu öllu saman.“

Hún segir að þau, í ríkis­stjórninni, verði væntan­lega yfir­heyrð um allar þessar á­kvarðanir í að­draganda kosninganna.

„Það er mjög já­kvætt að fá um­ræðu um þetta, úr gras­rótinni. Við vinnum auð­vitað okkar greiningar en það er já­kvætt að fá frum­kvæði frá þeim og það er á­kveðið að­hald í því,“ segir Katrín að lokum.