Tónleikagestum í tónleikahús landsins hefur fækkað síðan árið 2015, en árið 2019 mættu um 205 þúsund gestir á þá 695 tónleika sem haldnir voru í Hörpu, Hofi og Salnum í Kópavogi. Þar af voru gestirnir flestir í Hörpu rúmlega 174 þúsund talsins, um 22 þúsund sóttu tónleika í Salnum og tæplega níu þúsund í Hofi. Aldrei hafa fleiri gestir sótt tónleika í Hörpu en árið 2015, en þá voru þeir yfir 236 þúsund talsins.

Tónleikar sinfóníuhljómsveita landsins voru 96 talsins á síðasta ári og þá sóttu tæplega þrjátíu prósent landsmanna eða um 105 þúsund gestir. Mikill meirihluti sótti tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands eða um 103 þúsund manns, en það eru rúmum fjórðungi fleiri gestir en árið 2015. Tæplega þrjú þúsund fóru á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í fyrra og hefur fjöldi gesta haldist svipaður síðan árið 2010.

Það sem af er þessu ári hafa verið haldnir 138 tónleikar í Hörpu auk 23 streymistónleika. Í Salnum hafa verið haldnir 53 tónleikar með áhorfendum og fernir streymistónleikar á þessu ári. Ekki fengust svör við fyrirspurn Fréttablaðsins um fjölda tónleika sem haldnir hafa verið í Hofi í ár.

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir að um varnarsigur sé að ræða í ljósi aðstæðna. Kórónaveirufaraldurinn hafi óneitanlega haft mikil og neikvæð áhrif á starfsemi í húsinu. „Við höfum lagt ríka áherslu á að halda Hörpu sem mest lifandi og vinna með viðburðahöldurum að því að finna lausnir, innan þeirra marka sem sóttvarnaráðstafanir á hverjum tíma hafa leyft. Það hefur gengið vel með góðum vilja, skapandi lausnum og áherslu á ábyrgt viðburðahald,“ segir hún.

„Við erum að vinna miklu meira með streymi og upptökur og þar er Harpa líka einstaklega sterk með sitt framúrskarandi tæknifólk og aðstöðu,“ segir Svanhildur og bætir við að Harpa hafi einnig nýst vel við upptökur á alþjóðlegum kvikmyndaverkefnum á meðan á faraldrinum hefur staðið.

Hvað varðar framhaldið og tónleika í tengslum við jólin, segir Aino Freyja Järvelä, forstöðumaður í Salnum, framhaldið óráðið. „Við erum núna í biðstöðu eins og allir aðrir upp á það hvort við getum haldið þeirri dagskrá sem fyrirhuguð var. Margt hefur frestast fram yfir áramót. Hvernig framhaldið verður fer eftir fjöldatakmörkunum.“

Svanhildur tekur undir orð Aino, en segir það koma sér vel hversu hátt sé til lofts í Hörpu og vítt til veggja. „Við kunnum það upp á tíu að halda jafnvel stóra tónleika með mörgum sóttvarnahólfum. Það gengur hins vegar ekki með tveggja metra reglu og undir 200 manna takmörkunum. Það liggur því alveg fyrir að þegar á heildina er litið verður örugglega flest með verulega breyttu jólasniði,“ segir hún.

„En þá er bara að finna nýjar leiðir og lausnir og við Hörpufólk erum að vinna í því á hverjum degi,“ bætir hún við.